Flýtilyklar
Tveir góðir 0-3 sigrar á Álftanesi
Það er töluvert álag á blakliðum KA þessa dagana en bæði karla- og kvennalið KA eru á toppi Mizunodeildanna og eru að fara í gegnum strembið leikjaprógram til að geta komist í NEVZA Evrópukeppnina í byrjun febrúar. Í kvöld sóttu bæði lið Álftanes heim og máttu hvorugt við því að misstíga sig.
Konurnar hófu kvöldið og eftir að jafnt hafði verið í upphafi náði KA liðið góðu taki á hrinunni og bætti jafnt og þétt við forskotið. Mest fór munurinn upp í 10 stig en lokatölur voru 17-25 og ákaflega sannfærandi sigur okkar liðs í fyrstu hrinu staðreynd.
Hvort að þessi stóri sigur hafi gert okkar lið aðeins værukært skal ég ekki segja en heimastúlkur byrjuðu aðra hrinu betur. KA liðið svaraði fyrir sig og úr varð gríðarlega spennandi hrina þar sem vart mátti sjá hvort liðið myndi fara með sigur af hólmi. Álftanes leiddi 22-20 en síðustu fimm stigin voru okkar og 22-25 sigur í hús og staðan orðin 0-2.
Það var svo aldrei spurning hvort liðið tæki þriðju hrinuna en stelpurnar komust snemma í 4-13 og sigldu á endanum 15-25 sigur og þar með frekar öruggan 0-3 sigur í heildina. Stelpurnar sóttu þar með góð þrjú stig í toppbaráttunni en barátta KA og HK um Deildarmeistaratitilinn er gríðarlega hörð.
Paula Del Olmo var stigahæst hjá KA með 16 stig, Helena Kristín Gunnarsdóttir gerði 14, Hulda Elma Eysteinsdóttir 12, Gígja Guðnadóttir 6, Birna Baldursdóttir 5, Luz Medina 5 og Halldóra Margrét Bjarnadóttir 1 stig.
Þá var komið að körlunum og fyrsta hrina var hnífjöfn og spennandi. KA leiddi en munurinn var iðulega 1-2 stig og gríðarlega hart barist um fyrstu hrinu leiksins. Undir lokin seig okkar lið betur framúr og sótti 20-25 sigur og staðan orðin 0-1.
Áfram börðust liðin hart í næstu hrinu og áfram munaði iðulega 1-2 stigum auk þess sem þau skiptust þó nokkuð á að leiða hrinuna. Staðan var jöfn 20-20 en aftur var það okkar lið sem sýndi styrk sinn þegar mest á reyndi og vann aftur 20-25 sigur sem kom liðinu í 0-2.
Strákarnir skoruðu fyrstu fjögur stigin í þriðju hrinu og gaf það tóninn, Álftnesingar náðu aldrei að jafna leikinn og um miðbik hrinunnar var KA komið í 13-20 og síðar 19-24. Heimamenn reyndu hvað þeir gátu og náðu að laga stöðuna en það dugði ekki og KA vann 22-25 sigur og þar með leikinn 0-3.
Það er töluvert minni spenna á toppi karladeildarinnar en KA liðið á aðeins eftir að leika fimm leiki og það virðist hreinlega vera tímaspursmál hvenær liðið gulltryggir Deildarmeistaratitilinn. Alexander Arnar Þórisson var stigahæstur hjá KA með 16 stig, Miguel Mateo Castrillo og Stefano Nassini Hidalgo gerðu báðir 15 stig, Sigþór Helgason 9 og þeir Mason Casner og Filip Pawel Szewczyk gerðu 4 stig hvor.
Á morgun mæta strákarnir aftur liði Álftanes en stelpurnar leika hinsvegar gegn Álftanes 2 í Kjörísbikarnum