Tveir 3-0 sigrar um helgina

Blak
Tveir 3-0 sigrar um helgina
Stelpurnar ekki tapað hrinu! (mynd: Valgeir B.)

Kvennalið KA í blaki fer gríðarlega vel af stað í Mizunodeildinni en liðið vann Álftanes tvívegis um helgina og báða leikina 3-0. Mikið hefur verið talað um styrkleika KA liðsins fyrir veturinn og var spenna að sjá hve langt liðið væri komið á leið í undirbúningi sínum.

Álftnesingar hófu fyrri leikinn betur og leiddu fyrstu hrinuna til að byrja með. En þegar leið á hrinuna sýndi KA liðið styrk sinn og fjórir ásar í röð frá Huldu Elmu komu KA í góða stöðu. Gestirnir komu hinsvegar til baka og úr varð hörku rimma en endaspretturinn var KA megin og 25-19 sigur staðreynd.

Liðin skiptust á að leiða næstu hrinu og var mikil spenna hvoru megin sigurinn myndi enda en rétt eins og í fyrri hrinunni þá átti KA liðið mjög góðan endasprett og vann á endanum 25-18 eftir að hafa skorað síðustu 5 stig hrinunnar.

Það var minni spenna í þriðju hrinunni þar sem KA leiddi frá upphafi og var spurningin í raun aðeins hve stór sigur KA yrði. Álftnesingar minnkuðu muninn er leið á en það var ekki nóg og enn gaf KA liðið í undir lokin og sigldi heim 25-19 sigri og samtals 3-0 heildarsigri í höfn.

Leikur liðanna í dag var hinsvegar ekki eins jafn, fyrsta hrinan var algjör einstefna þar sem KA komst mest 15 stigum yfir og að lokum vannst 25-11 sigur. Þetta var greinilega gott kjaftshögg á lið gestanna því þær mættu mun betur stemmdar í þá næstu.

Álftanes komst í 1-7 í upphafi annarar hrinu en þegar á leið nálgaðist KA liðið og það dró af gestunum. KA vann á endanum 25-18 sigur í hrinunni og útlitið ansi hreint gott.

Allt virtist stefna í sannfærandi sigur KA í þriðju hrinu en gestirnir gerðu vel í að koma til baka og leiddu meðal annars 16-18. En enn og aftur sýndi okkar lið styrk sinn með góðum endasprett og á endanum vannst 25-20 sigur og þar með annar 3-0 sigur helgarinnar í höfn.

Það verður að viðurkennast að stelpurnar litu mjög vel út í þessum fyrstu leikjum og virðist vera alveg ljóst að KA er með eitt besta lið deildarinnar í vetur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is