Titilvörnin hefst á tveimur sigrum

Blak
Titilvörnin hefst á tveimur sigrum
Flott byrjun á tímabilinu (mynd: Valgeir B.)

Karlalið KA í blaki hefur tímabilið af krafti en liðið lagði um helgina lið Álftanes tvívegis í KA-Heimilinu. Liðið varð Meistari Meistaranna fyrir skömmu og bætti þar við enn einum titli í safnið en liðið vann eins og frægt er orðið Íslands-, Bikar- og Deildarmeistaratitilinn á síðustu leiktíð.

Það hefur mikið verið rætt um styrk KA liðsins fyrir veturinn og var nokkur pressa á liðinu fyrir leiki helgarinnar. Hvort þessi pressa hafi náð til leikmanna skal ég ekki segja en í fyrstu hrinu leiksins á laugardeginum gerðu strákarnir ótrúlega mikið af mistökum sem gáfu Álftnesingum stig og á endanum unnu gestirnir hrinuna sannfærandi 18-25.

Spilamennskan var betri í næstu hrinum sem unnust 25-20 og 25-16. Flestir reiknuðu með því að í kjölfarið myndi KA liðið klára leikinn 3-1 og þar með tryggja sér öll stigin en gestirnir voru ekki á þeim buxunum og eftir jafna hrinu var endaspretturinn þeirra og jöfnuðu þeir metin í 2-2 með 20-25 sigri.

Það var því ljóst að oddahrina myndi skera úr um sigurvegara leiksins og að liðin myndu deilda stigunum með sér. KA liðið leiddi oddahrinuna og gerði svo mjög vel í að skora síðustu 6 stig leiksins og vinna 15-8 sigur. Tvö stig í hús en af leikmönnum liðsins af dæma voru úrslitin engu að síður vonbrigði og ljóst að menn ætluðu að gera betur í seinni leiknum.

Strákarnir stóðu við stóru orðin og það var allt annað að sjá til liðsins í dag. Þeir höfðu gott tak á Álftnesingum og var sigur KA mjög sannfærandi. Liðið gerði reyndar ófá mistökin, þá sérstaklega í uppgjöfum en getumunurinn á liðunum í dag var einfaldlega það mikill að það kom ekki að sök.

KA vann á endanum 3-0 sigur, 25-18 í fyrstu hrinu, 25-22 í þeirri næstu þar sem gestirnir löguðu stöðuna undir lokin og svo 25-17 í síðustu hrinunni. Töluvert betra flæði var á spili KA liðsins í dag og þá sérstaklega er leið á leikinn og var hrein unun að fylgjast með Filip leika sér að því að velja uppspil á alla þá öflugu smassara sem við búum yfir.

Titilvörn KA liðsins hefst því á tveimur sigrum en það er þó ljóst að það er enn svolítið í land að liðið spili sitt besta blak en mjög ánægjulegt að klára báða leiki þó vissulega hefði það verið gaman að ná öllum stigunum sex í þetta skiptið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is