Þrjár frá KA í U19 sem náði 5. sæti

Blak
Þrjár frá KA í U19 sem náði 5. sæti
Glæsilegir fulltrúar KA!

KA átti þrjá fulltrúa í U19 ára landsliði Íslands í blaki er keppti á Norður-Evrópumóti NEVZA sem fram fór í Finnlandi undanfarna daga. Þetta eru þær Auður Pétursdóttir, Lilja Kristín Ágústsdóttir og Lilja Rut Kristjánsdóttir en auk þeirra stýrði Miguel Mateo Castrillo þjálfari KA liðinu.

Stelpurnar hófu leik gegn sterku liði heimakvenna í Finnlandi sem sýndi styrk sinn en leiknum lauk með 3-0 sigri Finna. Næsti leikur var gegn liði Noregs og þar sýndi íslenska liðið mjög flottan leik en að lokum þurftu stelpurnar okkar að sætta sig við 1-3 tap.

Næst tók við leikur gegn Dönum og aftur sýndu stelpurnar okkar flotta takta en niðurstaðan 1-3 tap og ljóst að íslenska liðið myndi keppa um sæti 5-7 á mótinu.

Þar mættu stelpurnar fyrst liði Færeyja og unnu þar góðan 3-1 sigur og ekki létu stelpurnar staðar numið þar því í kjölfarið vannst annar góður 3-1 sigur á liði Englands og 5. sætið í höfn eftir magnþrungna upphækkun í fjórðu hrinu.

Afar flottur árangur og morgunljóst að íslensku unglingalandsliðin eru farin að færast nær sterkustu þjóðunum í kringum okkur. Óskum okkar mögnuðu fulltrúum til hamingju með frábæran árangur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is