Stórleikir í blakinu á morgun, KA-HK

Blak

Þeir gerast vart stærri blakleikirnir sem fara fram í KA-Heimilinu á morgun, laugardag en þá taka bæði karla- og kvennalið KA á móti HK. Bæði lið KA eru á toppi Mizunodeildanna en HK veitir þeim ansi harða keppni og ljóst að þetta eru lykilleikir í baráttunni um Deildarmeistaratitilinn.

Strákarnir ríða á vaðið kl. 13:00 en KA liðið hefur unnið alla leiki sína nema einn á meðan HK hefur tapað tveimur leikjum í vetur. Liðin mættust tvívegis í Kópavogi fyrr í vetur og þá unnu liðin sitthvorn leikinn. HK vann fyrri leikinn 3-2 en KA hefndi fyrir og vann 1-3 daginn eftir. Rétt eins og í Kópavogi þá mætast liðin tvívegis en þau mætast á sunnudag kl. 13:00.

Stelpurnar taka svo við kl. 15:00 en liðin eru í svakalegri baráttu um toppsætið og munar einungis einu stigi á þeim. KA hefur tapað tveimur leikjum í vetur á sama tíma og HK hefur aðeins tapað einum en KA er fyrir ofan þar sem liðið hefur leikið einum leik meira. Liðin mættust tvívegis í Kópavogi fyrr í vetur og þá unnu liðin sitthvorn leikinn 3-1 og 1-3.

Báðir leikir morgundagsins verða sýndir beint á KA-TV en það er klárt að við þurfum á öllum þeim að halda sem geta lagt leið sína í KA-Heimilið og sjá til þess að þessi mögnuðu lið okkar taki forystuna í baráttunni um Deildarmeistaratitilinn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is