Stór blakhelgi fyrir sunnan hjá báðum liðum

Blak
Stór blakhelgi fyrir sunnan hjá báðum liðum
Sigþór og Arnrún ætla sér 5 sigra um helgina

Karla- og kvennalið KA í blaki leika bæði fyrir sunnan um helgina, karlarnir leika tvo leiki en konurnar leika þrjá leiki. Stutt er síðan bæði lið léku toppslagi gegn HK og því töluvert álag á leikmönnum þessa dagana en þetta verða síðustu leikir liðanna fyrir NEVZA Evrópukeppnina sem liðin taka þátt í á næstunni í Danmörku.

Kvennalið KA hefur leik klukkan 18:30 í kvöld gegn Álftanesi en þarna mætast liðin í efsta og neðsta sæti deildarinnar. Það ber þó að varast lið Álftaness en þær hafa unnið síðustu tvo leiki sína og virðast vera komnar í gang eftir erfiða byrjun á vetrinum.

Karlalið KA og Álftaness mætast svo í kjölfarið klukkan 20:30 en KA liðið er í góðri stöðu á toppi deildarinnar eftir tvo sigra á HK um síðustu helgi getur komist enn nær Deildarmeistaratitlinum með góðum úrslitum um helgina.

Á laugardag eru það karlarnir sem hefja leik klukkan 13:30 þegar þeir sækja aftur Álftnesinga heim. Síðari leikurinn er liður í 12. umferð deildarinnar og verða þá aðeins eftir fjórir leikir í deildarkeppninni auk þess sem það er mikilvægt að halda dampi og koma þannig af krafti inn í Evrópukeppnina.

Kvennalið KA leikur hinsvegar gegn Álftanes 2 klukkan 16:00 sem er fyrsti leikur okkar liðs í Kjörísbikarnum. Okkar lið er að sjálfsögðu talið líklegra fyrirfram en allt getur gerst í bikarnum og verður áhugavert að fylgjast með baráttu liðanna um sæti í næstu umferð.

Á sunnudag leika stelpurnar svo gegn Þrótti Reykjavík klukkan 13:00. Lið Þróttar situr í 4. sæti deildarinnar og mikilvægt að okkar lið haldi áfram að hala inn þriggja stiga sigrum. Fyrir helgina munar einungis einu stigi á KA og HK í toppbaráttunni og framundan gríðarlega hörð barátta um Deildarmeistaratitilinn hjá stelpunum.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á leikina og styðja okkar lið en við munum fylgjast vel með ef beinar útsendingar frá leikjunum verða í boði að sunnan.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is