Flýtilyklar
Stjarnan sló KA úr leik eftir oddahrinu
Kvennalið KA tók á móti Stjörnunni í úrslitakeppni Mizunodeildarinnar í blaki. Stjarnan hafði unnið fyrri leik liðanna og þurfti því KA liðið sigur til að knýja fram oddaleik í einvíginu.
Rétt eins og í fyrri leik liðanna þá var svakaleg spenna í fyrstu hrinu en gestirnir fóru á endanum með sigur 24-26. KA liðið kom sterkt til baka í upphafi næstu hrinu en endaspretturinn var Stjörnumegin og unnu þær 18-25 sigur. Staðan orðin 0-2 og KA liðið með bakið upp við vegg.
Í kjölfarið komu tvær virkilega flottar hrinur hjá stelpunum og unnu þær 25-15 og 25-12 sigra og náðu því fram oddahrinu. Því miður kviknaði aftur á sterku liði Stjörnunnar og unnu þær frekar sannfærandi 7-15 og leikinn því 2-3.
KA liðið hefur því lokið keppni í vetur og er alveg ljóst að stelpurnar munu læra mikið af þessu tímabili.