Flýtilyklar
Stelpurnar byrja á heimaleik í nágrannaslagnum
KA hefur leik í úrslitakeppninni í blaki kvenna á morgun, þriðjudag, þegar stelpurnar taka á móti Völsung í undanúrslitunum. Stelpurnar okkar hafa átt stórkostlegt tímabil og hafa nú þegar hampað sigri í bikarnum sem og deildinni og nú er komið að þeim allra stærsta, sjálfum Íslandsmeistaratitlinum!
Með sigri sínum í deildinni sluppu stelpurnar við að spila í 8-liða úrslitum og hefja því leik í úrslitakeppninni á morgun en Deildarmeistaratitillinn sér til þess að KA er með heimaleikjarétt í öllum sínum einvígum.
Andstæðingar okkar verða nágrannar okkar í Völsung og má búast við spennandi einvígi en Völsungur hefur átt afar gott tímabil og sló út HK afar sannfærandi í tveimur leikjum. Völsungur endaði í 4. sæti úrvalsdeildarinnar og fór í undanúrslit Kjörísbikarsins og ljóst að afar spennandi einvígi er framundan.
Liðin mættust tvívegis í deildinni í vetur, KA vann í KA-Heimilinu 3-1 en Völsungsliðið skellti okkar stelpum á Húsavík 3-0 en báðir leikir fóru fram í nóvember.
Fyrsti leikur liðanna er eins og áður segir á þriðjudaginn og hefst klukkan 19:00. Athugið að ársmiðar gilda ekki í úrslitakeppninni en miðasala fer fram í Stubb og við innganginn fyrir leik. Síðari leikurinn á Húsavík er svo á föstudaginn en ef liðin vinna sitthvorn leikinn verður oddaleikur í KA-Heimilinu á mánudaginn.
Fyrir þá sem ekki komast á leikinn á þriðjudaginn er hann í beinni á KA-TV í boði Errea, Valor, Bílaleigur Akureyrar og Finnur ehf. Hægt er að nálgast útsendinguna hér fyrir neðan: