Sigur og tap í Fagralundi í gær

Blak
Sigur og tap í Fagralundi í gær
Stelpurnar unnu góðan sigur (mynd: Þórir Tryggva)

Það var heldur betur blakveisla í Fagralundi í Kópavoginum í gær er karla- og kvennalið KA sóttu HK heim. Þarna mættust bestu blaklið landsins og eðlilega mikil eftirvænting fyrir leikjunum. Konurnar riðu á vaðið og var KA liðið enn ósigrað á toppi deildarinnar fyrir leikinn.

Liðin mættust nýverið í spennuleik í KA-Heimilinu þar sem KA vann í oddahrinu. Stelpurnar tóku snemma afgerandi forystu í fyrstu hrinu og leiddu mest með 9 stigum áður en 20-25 sigur vannst. Staðan því 0-1 og spilamennska KA liðsins góð.

Mikil spenna var í næstu hrinu og skiptust liðin á að leiða. Staðan var jöfn 23-23 fyrir lokaandartökin og mátti vart sjá hvort liðið tæki þessa mikilvægu hrinu. Það voru á endanum heimastúlkur sem kláruði dæmið 25-23 og jöfnuðu þar með í 1-1.

Stelpurnar svöruðu með því að komast í 1-6 áður en HK svaraði með sex stigum og leiddi því 7-6. Þarna fengu stelpurnar okkar greinilega nóg því þær gjörsamlega keyrðu yfir HK liðið og unnu afar sannfærandi 15-25 sigur og leiddu því 1-2 fyrir fjórðu hrinuna.

Þarna var KA liðið gjörsamlega búið að taka yfir leikinn og KA komst í 3-11 og síðar 9-20. Lokatölur í hrinunni voru 11-25 og yfirburðasigur stelpnanna staðreynd. Það er gríðarlega sterkt að sækja öll stigin gegn HK í Fagralundi og með sigrinum skildu stelpurnar HK liðið eftir í toppbaráttunni.

Stelpurnar hafa spilað frábærlega í vetur og geta verið sérstaklega ánægðar með hvernig þær keyrðu yfir HK í þriðju og fjórðu hrinu í leiknum. Framundan er hörð toppbarátta við Aftureldingu og mætast liðin tvívegis í desember en fyrst er útileikur gegn Álftanesi sem þarf að vinnast.

Paula del Olmo Gomez var stigahæst í liði KA með 21 stig, Helena Kristín Gunnarsdóttir gerði 16, Gígja Guðnadóttir 7, Arnrún Eik Guðmundsdóttir 5, Heiðrún Júlía Gunnarsdóttir 5, Jóna Margrét Arnarsdóttir 2, Valdís Kapitóla Þorvarðardóttir 2 og Luz Medina 2.

Þá var komið að körlunum en þar var staðan önnur en hjá konunum. HK á toppnum og eina tap þeirra í vetur var einmitt gegn KA fyrir norðan. KA liðið hefur hinsvegar verið í vandræðum með stöðugleika og tapaði síðasta leik gegn Aftureldingu í KA-Heimilinu þar sem liðið náði sér ekki á strik.

Jafnt var á með liðunum í upphafi fyrstu hrinu en þegar leið á tók KA liðið yfir og leiddi mest með 8 stigum áður en sannfærandi 20-25 sigur vannst. Strákarnir litu vel út í hrinunni og virtust vera sterkari aðilinn. Sóknin var öflug og heimamenn höfðu fá svör við leik KA liðsins.

Strákarnir byrjuðu næstu hrinu vel og leiddu í upphafi. Það vantar þó klárlega enn upp á stöðugleikann í spilamennsku liðsins og HK svaraði heldur betur fyrir sig. Að lokum tapaðist hrinan 25-15 og ljóst að strákarnir þyrftu að fara vel yfir málin fyrir þriðju hrinuna. Móttakan brást og í kjölfarið varð lítið úr þeim öfluga sóknarleik sem hefur einkennt liðið.

Það var mun minna um sveiflur í þriðju hrinu, HK leiddi en KA liðið var aldrei langt undan. Strákunum tókst þó aldrei að jafna metin og urðu á endanum að sætta sig við 25-22 tap og staðan því orðin erfið fyrir fjórðu hrinuna.

HK keyrði yfir strákana í upphafi hrinunnar en KA liðið minnkaði í 15-13 og virtist vera að snúa leiknum. Það tókst hinsvegar ekki og heimamenn tóku yfir og unnu 25-16 sigur og því 3-1 samanlagt. Annað tap KA liðsins í röð því staðreynd og óhætt að segja að strákarnir séu að missa af því að ná að verja Deildarmeistaratitilinn.

Miguel Mateo Castrillo var stigahæstur hjá KA með 24 stig, Alexander Arnar Þórisson gerði 13, Filip Pawel Szewczyk 5, Benedikt Rúnar Valtýsson 4, Hermann Biering Ottósson 3, Vigfús Jónbergsson 2 og Gísli Marteinn Baldvinsson 2.

Næsti leikur er útileikur gegn Álftnesingum þann 14. desember og þurfa strákarnir á sigri að halda en Álftanes er með 12 stig í 3. sæti deildarinnar á meðan KA er með 8 stig í 4.-5. sæti ásamt Aftureldingu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is