Flýtilyklar
Sigur og tap í Fagralundi í dag
Það voru tveir hörkuleikir í Mizunodeildum karla og kvenna í blakinu í dag þegar KA sótti HK heim. Karlalið KA sem var ósigrað fyrir leikinn þurfti að játa sig sigrað í oddahrinu en kvennalið KA gerði sér lítið fyrir og varð fyrsta liðið til að leggja HK að velli.
Strákarnir okkar byrjuðu af miklum krafti og skoruðu meðal annars fyrstu fjögur stig leiksins. Forskotið jókst er leið á hrinuna og KA vann á endanum öruggan 16-25 sigur og staðan orðin 0-1. Heimamenn komu hinsvegar miklu mun betur stemmdir í þá næstu og úr varð mikil spenna. Jafnræði var á með liðunum alla hrinuna og var jafnt 24-24 undir lokin. En lið HK tókst að klára dæmið með næstu tveimur stigum og jöfnuðu metin í 1-1.
Sama baráttan einkenndi þriðju hrinuna og var áfram jafnræði með liðunum. KA liðið náði hinsvegar að sýna styrk sinn undir lokin og innbyrði 21-25 sigur og staðan því aftur orðin góð, 1-2. Þetta virtist kveikja enn betur upp í heimamönnum því þeir komust í 9-3 í upphafi fjórðu hrinu og sigldu á endanum 25-19 sigri þar sem KA liðið gerði mikið meira af mistökum en HK.
Leikurinn fór því í oddahrinu og þar leiddi okkar lið, strákarnir komust í 8-10 en þá snerist leikurinn og HK vann 15-13 og leikinn því 3-2. Fyrsta tap vetrarins því staðreynd en þó jákvætt að fá stig útúr leiknum þar sem að hann fór í oddahrinu. Liðin mætast aftur á morgun kl. 13:00 og ljóst að þar verður aftur hörkuslagur.
Stelpurnar tóku svo við sviðinu, reyndar leit út fyrir að KA liðið væri ekki mætt til leiks því HK komst í 7-0 og leiddi síðar 20-15. Þá kom hinsvegar ótrúlegur kafli hjá okkar liði sem vann á endanum 21-25 sigur í hrinunni eftir 1-10 kafla!
Önnur hrinan var gríðarlega jöfn og spennandi enda oft talað um mikilvægustu hrinu blakleiks. KA komst í 21-23 undir lokin en heimastúlkur léku eftir endurkomu KA í fyrri hrinunni og unnu 25-23 sigur sem jafnaði leikinn í 1-1.
Sama spenna virtist ætla að vera í þriðju hrinu en þegar KA leiddi 3-5 kom magnaður kafli hjá Huldu Elmu Eysteinsdóttur þar sem KA fékk 12 stig í röð, þar af 5 úr ásum frá Elmu! KA vann á endanum 7-25 og var ótrúlegt að sjá yfirspilun okkar liðs í hrinunni.
HK svaraði hinsvegar fyrir sig og leiddi fjórðu hrinu lengst af. En KA liðið var aldrei langt undan og jafnaði í 18-18, þá virtist blaðran sprungin hjá HK og KA vann 21-25 sigur og leikinn því 1-3 í heildina. Frábær sigur staðreynd og KA liðið tyllir sér því á topp deildarinnar eftir ansi mikilvægan slag í toppbaráttunni.
Rétt eins og hjá körlunum þá mætast liðin aftur á morgun og getur KA liðið með sigri komið sér í ansi góða stöðu en það er ljóst að lið HK mun gera allt sem það getur til að svara fyrir tapið í dag.