Sigur og tap hjá KA liðunum í dag

Blak
Sigur og tap hjá KA liðunum í dag
Karlarnir með góðan sigur. Mynd Þórir Tryggvason

Það var heldur betur tekið á því í KA heimilinu í dag þegar heimamenn mættu Þrótti Neskaupstað bæði í karla- og kvennablakinu. Karlarnir hófu leikinn klukkan 13:00 og þar fóru heimamenn vel af stað, unnu tvær fyrstu hrinurnar býsna sannfærandi en báðum lauk 25-17.

Það var eins og KA-menn mættu hálf værukærir í þriðju hrinuna og það létu Þróttarar ekki bjóða sér tvisvar og unnu þá hrinu 25-22. En KA liðið ætlaði ekki að láta gestina fara  með stig út leiknum og unnu fjórðu hrinu afar sannfærandi, 25-10 og leikinn þar með 3-1.

Stig KA: Miguel Mateo Castrillo 23, Sigþór Helgason 14, Alexander Arnar Þórisson 13, Stefano Nassini Hidalgo 10, Mason Casner 4 og Filip Pawel Szewczyk 2 stig.
Hjá Þrótti var Miguel Angel Ramos Melero stigahæstur með 9 stig en næstir voru Atli Fannar Pétursson og Galdur Máni Davíðsson með 7 stig hvor.

Kvennalið sömu félaga mættust síðan í kjölfarið en bæði liðin eru í toppbaráttunni. KA liðið saknaði reyndar tveggja afar sterkra leikmanna en þær Birna Baldursdóttir og Hulda Elma Eysteinsdóttir voru ekki með í dag. En heimakonur mættu ákveðnar til leiks og unnu fyrstu hrinu býsna örugglega 25-16.

Önnur hrina var æsispennandi og þurfti að grípa til hækkunar en þar voru Þróttarkonur öflugri í lokin og lönduðu sigri 24-26. Í þriðju hrinu mættu KA öflugar og unnu hana 25-19.

Fjórða hrinan var í járnum líkt og önnur en þar fóru Þróttarkonur með nauman sigur 23-25 og því þurfti að grípa til oddahrinu til að knýja fram úrslit.

Þróttur byrjaði oddahrinuna með látum og komust í 3-6 en KA jafnaði í 6-6. Þróttur komst í kjölfarið í 8-13 sem var meira en heimakonum tókst að brúa og lauk hrinunni 10-15 fyrir Þrótt sem unnu þar með leikinn 2-3.

Stig KA: Helena Kristín Gunnarsdóttir 27, Paula Del Olmo Gomez 18, Guðnadóttir Gígja 11, Jóna Margrét Arnarsdóttir 7, Ásta Lilja Harðardóttir 6 og María José Ariza Sánchez 2 stig.
Hjá Þrótti var Heiða Elísabet Gunnarsdóttir með 24 stig og næstar komu Særún Birta Eiríksdóttir og Tinna Rut Þórarinsdóttir með 14 stig hvor.

Karlaliðin mætast öðru sinni á morgun, sunnudag og hefst sá leikur klukkan 13:00.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is