Flýtilyklar
Miguel og Paula til liðs við KA
Blakdeild KA er áfram stórhuga eftir gríðarlega vel heppnað tímabil hjá karlaliðinu sem vann alla þrjá titla sem í boði voru. Liðinu barst í morgun mikill liðsstyrkur en Miguel Mateo Castrillo var stigahæsti leikmaður Mizunodeildarinnar á síðustu leiktíð og kemur til KA frá Þrótti Neskaupstað.
Þá mun Miguel einnig taka að sér þjálfun kvennaliðs KA og barst stelpunum einnig mjög góður liðsstyrkur því Paula del Olmo Gomez gengur til liðs við liðið einnig frá Þrótti Nes. Paula var þriðji stigahæsti leikmaður deildarinnar á nýliðnu tímabili og ljóst að hún mun styrkja liðið mjög.
Miguel Mateo er Spánverji og verður 29 ára á árinu en hann hefur undanfarin ár leikið gríðarlega vel á Spáni og varð hann stigahæsti leikmaður Spænsku deildarinnar 2014-2015 og 2012-2013. 2015-2016 var hann næststigahæstur en hann var einnig í kringum toppinn 2016-2017 og 2013-2014.
Paula del Olmo fór fyrir liði Þróttar Nes. í vetur þegar liðið hampaði öllum titlum vetrarins og er ljóst að koma hennar til liðsins er gríðarlegur styrkur fyrir okkar efnilega lið.