Kjörísbikarveislan hefst í dag!

Blak
Kjörísbikarveislan hefst í dag!
Blakveislan hefst í dag gott fólk!

Úrslitahelgi Kjörísbikarsins í blaki er runnin upp og strákarnir okkar ríða á vaðið klukkan 17:30 þegar þeir mæta liði Vestra í undanúrslitunum í dag. Á morgun, föstudag, leika svo stelpurnar okkar gegn Þrótti Fjarðabyggð í undanúrslitum kvenna kl. 20:15 og ekki spurning að bæði lið ætla sér í úrslitaleikinn!

Úrslitaleikir karla og kvenna fara svo fram á laugardeginum en bikarhelgin fer öll fram í Digranesi í Kópavogi og fer öll miðasala fram í Stubbsappinu. Stelpurnar okkar eru ríkjandi Bikarmeistarar eftir stórbrotinn úrslitaleik í fyrra auk þess sem strákarnir okkar fóru í úrslitaleikinn í fyrra og eru hungraðir í að endurheimta bikarmeistaratitilinn.

Athugið að undanúrslitaleikirnir eru allir í beinni á RÚV 2 en úrslitaleikirnir sjálfir verða í beinni á RÚV en að sjálfsögðu hvetjum við alla sem geta til að mæta í Digranesið og styðja okkar mögnuðu lið til sigurs!

Eins og fyrr segir mæta strákarnir okkar liði Vestra klukkan 17:30 í dag en liðin mættust einnig í undanúrslitum keppninnar í fyrra þar sem KA vann 3-1 sigur, liðin mættust nýverið í úrvalsdeildinni í svakalegum leik og má búast við hörkuleik í dag. Í kjölfarið mætast svo Hamar og Afturelding í hinni undanúrslitaviðureigninni.

Stelpurnar eiga sviðið á föstudeginum en fyrri undanúrslitaleikurinn er leikur Völsungs gegn HK klukkan 17:30 og svo klukkan 20:15 er komið að okkar leik þegar Þróttur Fjarðabyggð mætir KA. Rétt eins og hjá strákunum mæta stelpurnar sama andstæðing og í undanúrslitum í fyrra en þá vann KA 3-1 sigur á Þrótturum og hömpuðu í kjölfarið Bikarmeistaratitlinum eftir 3-2 sigur á Aftureldingu í úrslitaleiknum.

Þá verður áfram blakveisla á sunnudeginum en þá fara fram úrslitaleikir yngriflokka og er KA með lið í þremur úrslitaleikjum af fjórum en stelpurnar í flokkum U14 og U16 leika til úrslita ásamt strákunum okkar í U16.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is