Flýtilyklar
KA vann uppgjör toppliðanna 3-0!
Það var annar risaslagur í blakinu í dag þegar KA tók á móti HK í Mizunodeild kvenna. Rétt eins og hjá körlunum var um uppgjör toppliðanna tveggja að ræða en í þetta skiptið var það KA liðið sem var undir meiri pressu að sækja sigurinn. KA var á toppi deildarinnar með stigi meira en HK en hafði leikið einum leik meira.
Svakaleg barátta einkenndi leikinn og öllum ljóst að leikurinn myndi skipta sköpum í baráttunni um Deildarmeistaratitilinn. Liðin skiptust á að leiða og var jafnt á nánast öllum tölum, það er að segja uns staðan var 21-21. Þá kom öflugur kafli hjá okkar liði sem gerði næstu fjögur stig og vann 25-21 sigur og tók þar með forystuna 1-0.
Luz Medina lék sinn fyrsta leik fyrir KA en hún er uppspilari frá Venesúela og var ekki beint að sjá að hún væri nýkomin norður eftir um 40 tíma ferðalag.
Allt virtist benda til þess að gestirnir myndu jafna metin strax því þær hófu næstu hrinu af gríðarlegum krafti og leiddu til að mynda 8-13 og 13-17. En það er ekki hægt að afskrifa KA liðið sem jafnaði í 17-17 og úr varð svakalegur endakafli. Undir lokin var jafnt 23-23 en rétt eins og í fyrstu hrinunni þá reyndist okkar lið ískalt þegar mest reyndi á og sigldi inn 25-23 sigri.
Gestirnir með bakið upp við vegginn 2-0 undir og KA gekk á lagið. Töluvert var um mistök af hálfu beggja liða í næstu hrinu en spilamennska KA var betri og stelpurnar leiddu. Munurinn var 2-4 stig í gegnum alla hrinuna og KA vann að lokum 25-22 og leikinn þar með 3-0.
Úrslitin gríðarlega stór og mikilvæg enda breytir það stöðunni í deildinni þannig að nú leiðir KA deildina með fjórum stigum og HK getur minnst minnkað muninn í eitt stig. Okkar lið er því komið í bílstjórasætið í toppbaráttunni þegar 8 leikir eru eftir í deildinni og innbyrðisleikir KA og HK búnir.
Stelpurnar leika gegn Álftanesi á útivelli á föstudaginn og svo gegn Þrótti Reykjavík á sunnudaginn. Mikilvægir leikir og mega stelpurnar alls ekki misstíga sig til að viðhalda forystusætinu í deildinni.