KA vann frábæran sigur á Húsavík

Blak
KA vann frábæran sigur á Húsavík
Gríðarlega mikilvægur sigur (mynd: Þórir Tryggva)

Það var sannkallaður nágrannaslagur í kvöld er Völsungur tók á móti KA í Mizunodeild kvenna í blaki. Fyrir leikinn var KA í 2. sæti deildarinnar en lið Völsungs hefur verið á miklu skriði undanfarið og sat í 3. sætinu, leikurinn var því ansi mikilvægur í toppbaráttunni og ljóst að bæði lið ætluðu sér sigurinn.

Það varð strax ljóst að leikurinn yrði stál í stál og var fyrsta hrinan gríðarlega spennandi. Munurinn á liðunum var 1-2 stig nær allan tímann og mátti vart sjá hvort liðið myndi ná fyrsta stigi leiksins. Eftir að hafa verið að elta mest allan tímann komst KA liðið yfir í 19-20 en heimastúlkur tóku þá ótrúlegan endasprett og sigldu inn 25-21 sigri í hrinunni.

Ekki var spennan minni í þeirri næstu áfram var munurinn lengst af 1-2 stig og spilaðist hrinan ákaflega svipað og sú fyrri. Í þetta skiptið voru það hinsvegar okkar að enda vel og 21-25 sigur staðreynd og staðan orðin jöfn 1-1.

Leikurinn þrælskemmtilegur og bæði lið að bjóða upp á frábært blak þrátt fyrir langt jólafrí. Þriðja hrinan bauð upp á nákvæmlega það sama, liðin skiptust á að leiða leikinn og spennan áfram mikil. Um miðja hrinuna náði KA þriggja stiga forystu sem stelpunum tókst að halda út og á endanum vannst 21-25 sigur, staðan orðin 1-2 og KA öruggt með að minnsta kosti eitt stig úr leiknum.

Stelpurnar komnar í góða stöðu og þær hófu fjórðu hrinuna af krafti. Völsungsliðið hélt þó í við okkar lið og enn var ótrúleg spenna í leiknum. Heimastúlkur komust yfir í 13-12 en aftur gaf okkar lið í og komust í kjölfarið í 14-19. Lið Völsungs minnkaði muninn í 18-19 en aftur kom frábær kafli hjá okkar liði sem komst í 19-23 og í 20-24. Næstu þrjú stig voru Húsvísk og gríðarleg spenna í leiknum, næsta stig var sem betur fer okkar og KA vann því hrinuna 23-25.

Frábær sigur staðreynd sem gefur þrjú stig og KA tyllir sér á topp deildarinnar en á laugardaginn er annar hörkuleikur framundan þegar HK kemur í heimsókn. HK er tæknilega séð á toppi deildarinnar enda aðeins búið að tapa einum leik sem var einmitt gegn KA. Sigur á laugardaginn kemur okkar liði í bílstjórasætið í toppbaráttu deildarinnar og ljóst að við þurfum að fjölmenna í KA-Heimilið til að tryggja að það gerist.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is