Flýtilyklar
KA tvöfaldur Deildarmeistari í blaki
Kvennalið KA tryggði sér í dag sigur í Mizunodeild kvenna í blaki eftir 1-3 sigur á Þrótti Neskaupstað á útivelli. Stelpurnar töpuðu aðeins tveimur leikjum í vetur en þurftu engu að síður á tveimur sigrum að halda um helgina til að tryggja titilinn og það gerðu þær svo sannarlega. Þetta er í fyrsta skiptið sem sama félagið vinnur deildarkeppnina karla- og kvennamegin sama árið.
Dagurinn hófst á karlaleik KA og Þróttar Nes. en karlarnir eru fyrir þó nokkru búnir að tryggja sér öruggan sigur í sinni deild. Leikurinn í dag var lokaleikur KA í deildinni og alveg ljóst að strákarnir ætluðu sér að klára deildina af krafti.
Það var nákvæmlega engin spenna í fyrstu hrinunni þar sem strákarnir fóru með 8-25 sigur af hólmi eftir að KA hafði komist í 1-15. Liðin skiptust svo á að leiða í annarri hrinu en KA liðið sýndi styrk sinn undir lokin og vann 19-25 sigur og staðan orðin 0-2.
Hinsvegar var svo aldrei spurning hvoru megin sigurinn í þriðju hrinu myndi enda en KA leiddi frá upphafi og vann að lokum 18-25 sigur og þar með leikinn 0-3. Karlalið KA stendur því uppi sem sigurvegari í sinni deild með 41 stig af 46 stigum mögulegum en einn leikur tapaðist eftir að titilinn var í höfn.
Töluvert meiri spenna var fyrir leikinn hjá konunum en KA sem hafði unnið 0-3 sigur í leik liðanna í gær þurfti á sigri að halda til að tryggja sigur í deildinni en leikur dagsins var lokaleikur liðsins í deildinni. Þróttur sem er fráfarandi Deildarmeistari hafði engan áhuga á að sjá KA tryggja sér sigur á þeirra heimavelli og úr varð spennandi leikur.
Stelpurnar okkar hófu leikinn vel og komust snemma í 2-7 og síðar í 12-22. Þá kom hinsvegar góður kafli hjá heimastúlkum sem gerðu næstu 6 stig og KA tók leikhlé. Það skerpti vel á okkar liði og stelpurnar unnu 18-25 sigur í hrinunni.
En þarna var kviknað líf í liði heimamanna og næsta hrina var ótrúlega spennandi. Aldrei munaði meiru en tveimur stigum á liðunum og mátti vart sjá hvort liðið náði hrinunni. Jafnt var 24-24 og þurfti því að leik aukastig en þar reyndust Þróttarar sterkari og þær jöfnuðu í 1-1 með 26-24 sigri.
Svar KA liðsins við þessu tapi var hinsvegar algjörlega til fyrirmyndar og ekki leið á löngu uns staðan var orðin 3-17 fyrir KA og síðar 5-20. KA vann hrinuna svo 7-25 og var í raun ótrúlegt að fylgjast með yfirburðum stelpnanna eftir jafna og spennandi hrinu þar á undan sem tapaðist.
KA var því komið í 1-2 og í góða stöðu til að gera útum leikinn, KA tók strax afgerandi forystu í hrinunni, skoraði fyrstu átta stigin og komst síðar 10-20. Þróttarstelpur voru þó ekki á þeim buxunum að gefast upp og náðu að jafna í 24-24 og spennan allsráðandi. KA stelpurnar sýndu góðan karakter og héldu ró sinni og lönduðu næstu tveim stigum og þar með hrinunni 24-26 og samtals 1-3 sigur í leiknum.
Kvennalið KA stendur því uppi sem sigurvegari í Mizunodeildinni og KA þar með tvöfaldur Deildarmeistari í ár í blakinu. Magnaður árangur en þetta er í annað skiptið í sögunni sem kvennalið KA vinnur deildarkeppnina.
Stórkostlegur árangur hjá stelpunum en þær enda með 49 stig af 54 mögulegum og eru til alls líklegar nú þegar framundan er úrslitahelgin í Bikarkeppninni sem og úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn.
Við óskum stelpunum til hamingju með titilinn sem þær eiga svo sannarlega skilinn sem og góðs gengis í baráttunni sem er framundan, áfram KA!