KA þrefaldur meistari í blaki kvenna!

Blak
KA þrefaldur meistari í blaki kvenna!
Stórkostlegur vetur að baki! (mynd: Egill Bjarni)

KA tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna fyrir troðfullu KA-Heimili í kvöld er stelpurnar unnu afar sannfærandi 3-0 sigur á Aftureldingu. KA vann þar með úrslitaeinvígið 3-0 í leikjum og vann í raun alla leikina án þess að tapa hrinu.

Stelpurnar fullkomnuðu þar með stórbrotið tímabil en þær standa nú uppi sem Íslands-, Bikar- og Deildarmeistarar og eru því handhafar allra þriggja stærstu titla tímabilsins. Stemningin sem myndaðist í KA-Heimilinu var magnþrungin og sigurgleðin sem braust út í lok leiks var stórkostleg.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Egill Bjarni Friðjónsson og Þórir Tryggvason ljósmyndarar voru á svæðinu og bjóða báðir upp á myndaveislur frá leiknum sem og fagnaðarlátunum miklu. Við þökkum þeim félögum kærlega fyrir framtakið.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum

Stelpurnar hófu leikinn af miklum krafti og náðu strax frumkvæðinu. Afturelding tók því fljótlega leikhlé og reyndi að ráða ráðum sínum. Það sást bersýnilega að stelpurnar okkar voru gríðarlega vel undirbúnar og höndluðu spennustigið upp á tíu. Það sást vel að í upphafi leiks hafði okkar lið aðeins gert ein mistök sem kostuðu stig en Afturelding hafði á sama tíma gert ellefu slík.

Afturelding náði þó að stilla leik sinn betur af og kom með nokkur áhlaup. En stelpurnar héldu haus og gáfu alltaf í til baka þegar forskotið varð minna og unnu að lokum afar sannfærandi 25-18 sigur í fyrstu hrinu og stemningin í KA-Heimilinu var rafmögnuð.

Hrina 1

Meiri spenna var í annarri hrinu og var jafnt á nánast öllum tölum upp í stöðuna 14-14. Þá kom frábær kafli hjá stelpunum sem hreinlega keyrðu yfir Mosfellinga og þær unnu að lokum hrinuna 25-19 og komnar í kjörstöðu 2-0.

Hrina 2

Það var svo aldrei spurning hvernig leikar færu í þriðju hrinu en KA komst fljótlega í 10-4 forystu sem þær létu aldrei af hendi og að lokum vannst 25-16 sigur og leikurinn þar með samtals 3-0.

Hrina 3

Það var algjörlega stórkostlegt að fylgjast með stelpunum í leiknum, þær stigu vart feilspor og það skipti engu hver það var sem kom að hlut allir leikmenn skiluðu heldur betur sínu og ljóst að það hefði þurft ansi sterkt alþjóðlegt lið til að stöðva KA liðið í þeim ham sem stelpurnar voru í í gær.

KA liðið er byggt upp að miklu leiti af ungum stelpum og voru ekki margir fyrir tímabilið sem héldu að KA gæti keppt við gríðarlega vel mannað lið Aftureldingar. En með mikilli vinnu og frábærri spilamennsku standa stelpurnar nú uppi sem handhafar allra titlanna og töpuðu aðeins einum leik í vetur. Þá er ótrúlegt að þær töpuðu ekki einni hrinu í allri úrslitakeppninni sem er í raun stórbrotið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is