KA með 10 sigra af 10 mögulegum

Blak
KA með 10 sigra af 10 mögulegum
Stelpurnar algjörlega frábærar /mynd Þórir Tryggva

Það virðist fátt getað stöðvað KA í blaki kvenna en liðið varð eins og frægt er orðið Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari á síðustu leiktíð. Stelpurnar hafa svo farið frábærlega af stað í Mizunodeildinni í vetur og voru fyrir leikinn gegn Þrótti Reykjavík í gær með 9 sigra af 9 mögulegum.

Medina Luz uppspilari yfirgaf liðið á dögunum en hún hefur leikið stórt hlutverk frá því hún kom til liðsins í fyrra. Það var þó ekki að sjá að liðið saknaði hennar í upphafi leiks því stelpurnar komust strax í 1-10 og voru að spila ákaflega vel. Hin unga og efnilega Jóna Margrét Arnarsdóttir sem lék nýverið sína fyrstu A-landsleiki fær nú ábyrgðina og hún stóð sig með prýði í leiknum.

En heimakonur í Þrótti gáfust ekki upp þrátt fyrir erfiða byrjun og þær komu sér hægt og bítandi aftur inn í leikinn. Þeim tókst að jafna í 18-18 og komust í kjölfarið yfir í 22-20 undir lokin og voru því komnar í lykilstöðu á að klára hrinuna. En KA liðið sneri dæminu við eins og svo oft áður þegar mest liggur við og þær unnu að lokum 23-25 sigur og leiddu því 0-1.

Aftur byrjaði okkar lið betur og komst í 3-8 áður en Þróttarar bitu betur frá sér. Það var þó nokkuð um sveiflur en eftir að Þróttur hafði minnkað muninn í eitt stig gaf KA liðið aftur í og komst í 9-16 og síðar 13-20. Undir lokin leiddi KA 16-23 og héldu flestir að úrslitin í hrinunni væru ráðin en svo var heldur betur ekki og heimastúlkur knúðu fram upphækkun með því að jafna í 24-24. Aftur sýndu stelpurnar að þær eru bestar undir pressu og unnu 24-26 sigur og því komnar í lykilstöðu 0-2.

Það kom svo ekkert sérstaklega á óvart að stelpurnar byrjuðu betur í þriðju hrinu og þær komust strax í 1-6. Að þessu sinni hleyptu þær Þrótti hinsvegar ekki aftur inn í leikinn og KA vann afar sannfærandi 13-25 sigur í hrinunni og leikinn samanlagt 0-3.

Paula del Olmo Gomez var stigahæst í liði KA með 19 stig, Helena Kristín Gunnarsdóttir gerði 13, Gígja Guðnadóttir 8, Jóna Margrét Arnarsdóttir 7, Sóley Karlsdóttir 5, Nera Mateljan 4 og Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir 1.

KA liðið er því áfram á toppi deildarinnar eftir að hafa unnið fyrstu 10 leiki sína og hefur aðeins misst af einu stigi af 30 mögulegum. Næsti leikur er heimaleikur gegn Aftureldingu á miðvikudaginn en Mosfellingar eru í 2. sæti og eru 5 stigum á eftir okkar liði. Það má því stilla leiknum upp sem algjörum lykilleik í baráttunni um Deildarmeistaratitilinn nú þegar aðeins fimm leikir eru eftir af deildinni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is