Flýtilyklar
KA í úrslit eftir 0-3 sigur
Draumurinn um þrennuna lifir góðu lífi í blakinu eftir 0-3 sigur á Aftureldingu í fjórða leik liðanna í undanúrslitum á Íslandsmótinu í blaki. KA vann þar með einvígið 3-1 og mætir HK í úrslitunum.
Fyrsta hrinan var stál í stál að Varmá í kvöld og voru það heimamenn sem leiddu en aldrei var KA liðið langt undan. Undir lok hrinunnar var jafnt á öllum tölum en okkar lið sneri dæminu við í stöðunni 23-23 og kláraði hrinuna 23-25 og tók þar með forystu í leiknum 0-1.
Eitthvað virtist það fara illa í heimamenn að hafa misst fyrstu hrinuna því KA tók strax forystuna og bætti við jafnt og þétt það sem eftir lifði og vann á endanum 16-25 sigur og staðan orðin erfið fyrir Mosfellinga.
Þriðja og síðasta hrinan byrjaði svipað og sú á undan en Aftureldingarmenn gáfust ekki upp og reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin. Það gekk þó ekki upp enda var KA að spila flottan varnarleik á sama tíma og stigaskor dreifðist vel á sóknarlínuna. KA vann hrinuna 19-25 og leikinn því örugglega 0-3!
Strákarnir eru því komnir í sjálft úrslitaeinvígið og hafa nú þegar unnið sigur í Deildar- og Bikarkeppninni. KA liðið mætir í úrslitunum liði HK sem er ríkjandi Íslandsmeistari. Draumurinn um þrennuna lifir en fyrsti leikur í úrslitunum er í KA-Heimilinu þriðjudaginn 10. apríl.