Góður útisigur í fyrri leiknum gegn HK

Blak
Góður útisigur í fyrri leiknum gegn HK
Frábær sigur í kvöld (mynd: EBF)

KA og HK mættust í fyrri leik sínum í úrslitakeppninni í blaki karla í Kópavogi í kvöld en KA endaði í 3. sæti úrvalsdeildarinnar en HK í 6. sæti. Leikið er heima og heiman en í húfi er sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Það var því mikilvægt að byrja einvígið vel og voru strákarnir okkar vel undirbúnir eftir góða pásu undanfarnar vikur. Heimamenn byrjuðu þó reyndar betur og unnu fyrstu hrinu 25-21.

KA liðið svaraði hinsvegar vel fyrir sig, vann aðra hrinu 19-25 og jafnaði þar með metin. HK byrjaði mun betur í þeirri þriðju en strákarnir komu sterkir til baka og unnu að lokum 22-25 og því komnir í lykilstöðu fyrir fjórðu hrinu.

Þar var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda og vannst að lokum afar sannfærandi 16-25 sigur og þar með 1-3 samtals. KA liðið er því í afar góðri stöðu fyrir heimaleik sinn sem er á föstudaginn klukkan 19:00.

Aðeins eru leiknir tveir leikir í einvíginu þannig að sigur á föstudaginn tryggir sæti í undanúrslitunum en ef HK vinnur í KA-Heimilinu verður leikin auka gullhrina þar sem sigurliðið í þeirri hrinu tryggir sér sæti í næstu umferð.

Við hvetjum því alla til að mæta klukkan 19:00 á föstudaginn og styðja strákana okkar til sigurs, áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is