Flýtilyklar
Frábær sigur strákanna í Mosó
KA sótti Aftureldingu heim í 2. umferð Mizunodeildar karla í blaki í dag en fyrir leikinn voru heimamenn með þrjú stig en KA án stiga. Það var því smá pressa á strákunum að koma sér á blað og þeir stóðu heldur betur undir því.
Flestir reiknuðu með hörkuleik enda tvö lið sem ætla sér stóra hluti í vetur en strákarnir voru fljótir að taka yfir leikinn. KA komst fljótlega í 4-8, Mosfellingar reyndu að koma sér betur inn í leikinn en það gekk ekki og í kjölfarið jókst munurinn jafnt og þétt. Að lokum vann KA fyrstu hrinuna 13-25 og útlitið ansi bjart.
Stundum reynist það liðum erfitt að fylgja á eftir jafn stórum sigri í hrinu en hausinn var heldur betur rétt skrúfaður á okkar menn og þeir komust aftur í 4-8, stuttu síðar var forskotið orðið 7-14 og ekkert sem benti til þess að það yrði einhver spenna í hrinunni. Að lokum vannst öruggur 12-25 sigur og staðan orðin 0-2 fyrir KA.
Heimamenn með bakið uppvið vegg og ekki skánaði útlitið hjá þeim í upphafi þriðju hrinu því KA komst í 0-5 og síðar 6-18. Að lokum vannst aftur 12-25 sigur og afar sannfærandi 0-3 sigur KA staðreynd. Liðið leit mjög vel út í leiknum og vonandi merki um að strákarnir séu klárir að berjast um titla vetrarins í kjölfarið.