Flýtilyklar
Deildartitillinn í augsýn eftir 3-0 sigur
KA tók aftur á móti HK í toppslag Mizunodeildar karla í dag en liðið hafði deginum áður unnið 3-2 sigur í svakalegum leik liðanna. Gestirnir urðu að vinna leikinn og það með þriggja stiga sigri til að hanga í KA í toppbaráttu deildarinnar og úr varð hörkuleikur tveggja bestu blakliða landsins.
KA hóf leikinn betur, náði forystunni og leiddi til að mynda 11-7. Lið HK gaf þó ekkert eftir og jafnaði skömmu síðar í 13-13 og síðar í 15-15. Þá kom aftur góður kafli hjá okkar liði sem gjörsamlega afgreiddi gestina og KA tók því fyrstu hrinu 25-19.
Töluvert meiri spenna var í þeirri næstu og var jafnt á nánast öllum tölum. HK leiddi 11-12 um miðbik hrinunnar en þá loksins kom smá skorpa þar sem strákarnir náðu að tengja nokkur stig og komust yfir í 17-13. Aftur gáfust gestirnir ekki upp og þeir jöfnuðu í 17-17 og aftur í 18-18.
Strákarnir virtust í kjölfarið ætla að klára hrinu tvö er þeir komust í 22-19 en HK sneri taflinu við og leiddi 22-23 og svo aftur í 23-24 og þurfti aðeins stig til að jafna metin eftir að KA hafði leitt alla hrinuna. Sem betur fer voru strákarnir ískaldir er mest á reyndi og sigldu heim 27-25 sigri og staðan orðin ansi góð fyrir þriðju hrinu.
HK skoraði fyrsta stigið og klikkaði svo á uppgjöf sem var áhugavert því allar þrjár hrinurnar hófust á þeirri fléttu. Jafnt var á öllum tölum upp í 11-11 en það voru gestirnir sem leiddu og þeir komust svo yfir í 11-13 og virtust staðráðnir í að sækja að minnsta kosti stig í KA-Heimilið í dag. KA jafnaði hinsvegar í 13-13 og áfram var jafnt á öllum tölum í kjölfarið.
Enn var jafnt í stöðunni 21-21 og allt undir hjá liðunum. En eins og undir lokin á annarri hrinu þá sýndu strákarnir að þeir eru ískaldir undir pressu og þeir gerðu sér lítið fyrir og gerðu fjögur stig í röð og unnu hrinuna því 25-21 og leikinn samtals 3-0.
Leikurinn bráðfjörugur og skemmtilegur en styrkur KA liðsins einfaldlega það mikill að strákarnir sóttu öll stigin þrjú og sérstaklega gaman að sjá hve vel liðið spilar þegar allt er undir í lok hrinanna.
Stefano Nassini var stigahæstur í liði KA með 13 stig en stigin dreifðust ansi vel á milli manna en næstur kom Miguel Mateo með 12, Alexander Arnar gerði 10, Sigþór Helgason 8, Filip Pawel 4, Mason Casner 3 og Björn Heiðar 1 stig.
Sigurinn kemur KA liðinu í algjöra draumastöðu á toppi deildarinnar en liðið er með 26 stig þegar aðeins 6 leikir eru eftir og er 14 stigum á undan HK sem á að vísu tvo leiki til góða en það er ljóst að allt þarf að ganga á afturfótunum til að KA verji ekki Deildarmeistaratitilinn sem liðið vann eins og frægt er í fyrra.
Næstu leikir KA liðsins eru næstu helgi er strákarnir sækja Álftanes heim á föstudag og laugardag. Þetta eru síðustu leikir liðsins fyrir Evrópukeppnina sem fer fram í Danmörku og flott að nýta þá leiki til að spila sig enn betur saman en leikirnir gegn HK um helgina voru fyrstu leikir KA eftir eins og hálfs mánaðar jólafrí.