Auður, Sóldís og Þórhildur í 4. sæti í Færeyjum

Blak
Auður, Sóldís og Þórhildur í 4. sæti í Færeyjum
Sóldís, Þórhildur og Auður stóðu fyrir sínu

U19 ára landslið kvenna í blaki lék á NEVZA móti í Færeyjum síðustu daga. KA átti þrjá fulltrúa í hópnum en það eru þær Auður Pétursdóttir, Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir og Þórhildur Lilja Einarsdóttir.

Íslenska liðið lék í riðli með Svíum og Englendingum en stelpurnar gerðu vel gegn firnasterku liði Svía en þurftu á endanum að sætta sig við 1-3 tap. Þess ber þó að geta að þetta var eina hrinan sem sænska liðið tapaði á mótinu en alla aðra leiki sína vann sænska liðið 3-0 og stóð uppi sem sigurvegari á mótinu.

Stelpurnar sóttu svo 3-1 sigur gegn Englendingum sem tryggði þeim leik gegn heimaliði Færeyja í 8-liða úrslitum mótsins. Þar spiluðu stelpurnar virkilega vel og unnu sannfærandi 3-0 sigur.

Í undanúrslitum þurfti íslenska liðið þó að sætta sig við 0-3 tap gegn sterku liði Dana og var því niðurstaðan að stelpurnar léku við Noreg í leik um bronsið. Leikurinn var gríðarlega jafn og spennandi og fór að lokum í oddahrinu sem þær norsku unnu og leikinn því samtals 2-3.

Niðurstaðan því 4. sætið hjá íslenska liðinu sem er flottur árangur og ansi flott að við í KA eigum þrjá fulltrúa í þessu sterka liði Íslands.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is