Auður fékk brons á NEVZA með U17

Blak
Auður fékk brons á NEVZA með U17
Mateo, Auður, Oscar og Pétur stóðu í ströngu

Auður Pétursdóttir var í eldlínunni með U17 ára landsliði Íslands í blaki sem keppti á NEVZA Evrópumóti í Ikast í Danmörku en mótinu lauk í dag þar sem stúlknalandslið Íslands hampaði bronsverðlaunum eftir sigur á Englandi í lokaleik sínum.

Spilandi þjálfari KA hann Miguel Mateo Castrillo er þjálfari stúlknalandsliðsins og þá er Oscar Fernandez Celiz leikmaður KA þjálfari drengjalandsliðsins. Þá fór faðir Auðar, Pétur Ingi Haraldsson, með í ferðina sem liðsstjóri en hann leikur einnig blak með öldungaliði KA.

Auður sem leikur í stöðu miðju hefur þrátt fyrir ungan aldur verið að koma gríðarlega sterk inn í meistaraflokkslið KA sem er eins og flestir ættu að vita Íslands-, Bikar- og Deildarmeistarar eftir magnaða síðustu leiktíð og þá hófu stelpurnar núverandi tímabil á því að verða Meistarar Meistaranna.

Íslensku stelpurnar léku í A-riðli ásamt Færeyjum og Englandi. Stelpurnar enduðu í 2. sæti riðilsins eftir 3-0 sigur á Færeyjum og 0-3 tap gegn Englendingum. Stelpurnar tryggðu sér þar með sæti í 8-liða úrslitum þar sem þær mættu heimastúlkum í Danmörku.

Þar var um hörkuleik að ræða og eftir frábæra spilamennsku tókst íslenska liðinu að sigra 3-2 í oddahrinu og fór því áfram í undanúrslitin þar sem lið Noregs beið. Eftir hörkuleik voru það norsku stúlkurnar sem fóru með 1-3 sigur af hólmi og því leikur um bronsið framundan.

Í bronsleiknum mætti Ísland liði Englands sem hafði unnið 0-3 sigur í leik liðanna í riðlakeppninni en allt annað var uppi á teningunum í dag þar sem stelpurnar unnu að lokum sannfærandi 3-0 sigur og tryggðu sér þar með bronsið.

Frábær árangur hjá liðinu og óskum við þeim Auði og Mateo innilega til hamingju. Drengjalandsliðið undir stjórn Oscars endaði svo í 6. sætinu strákamegin.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is