Flýtilyklar
Filip íþróttamaður KA 2018
91 árs afmæli Knattspyrnufélags Akureyrar var fagnað í KA-Heimilinu í dag við skemmtilega athöfn. Ingvar Már Gíslason formaður KA fór yfir viðburðarríkt ár og munum við birta ræðu hans á morgun hér á síðunni. Landsliðsmenn KA voru heiðraðir auk þess sem Böggubikarinn var afhentur og íþróttamaður KA var útnefndur.
Þórir Tryggvason ljósmyndari mætti á svæðið og myndaði herlegheitin í bak og fyrir. Myndir hans frá deginum má sjá með því að smella hér.
Íþróttamenn deilda árið 2018
Deildir innan KA útnefndu íþróttamann úr sínum röðum sem íþróttamann KA en það voru þau Alexander Heiðarsson (júdódeild), Anna Rakel Pétursdóttir (knattspyrnudeild), Filip Szewczyk (blakdeild) og Martha Hermannsdóttir (handknattleiksdeild). Öll hlutu þau formannsbikar KA sem er gefinn af fyrrum formönnum félagsins. Þar sem að verið var að verðlauna fyrir afrek á 90 ára afmælisári félagsins voru bikararnir sérstaklega glæsilegir í ár.
Filip Szewczyk var valinn íþróttamaður KA en Filip er spilandi þjálfari karlaliðs KA í blaki. Hann var potturinn og pannan í liði KA sem vann alla titla sem í boði voru á árinu en það voru Íslands-, Bikar- og Deildarmeistaratitill auk þess sem liðið er meistari meistaranna. Filip var kjörinn besti leikmaður deildarinnar sem og besti uppspilarinn á síðustu leiktíð. Þá er KA liðið er á toppi Mizunodeildarinnar það sem af er núverandi leiktíð.
Þá voru 7 ungir iðkendur tilnefndir til Böggubikarsins sem eru tveir farandbikarar, gefnir af Gunnari Níelssyni, Ragnhildi Jósefsdóttur og börnum þeirra til minningar um Sigurbjörgu Níelsdóttur, Böggu, systur Gunnars. Bögga var fædd þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011.
Böggubikarinn skal veittur þeim einstaklingum, pilti og stúlku, sem eru á aldrinum 16- 19 ára og þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi.
Dagur Gautason og Karen María Sigurgeirsdóttir hlutu Böggubikarinn
Þau sem voru tilnefnd í ár voru þau Andrea Þorvaldsdóttir (blakdeild), Alexander Heiðarsson (júdódeild), Anna Þyrí Halldórsdóttir (handknattleiksdeild), Berenika Bernat (júdódeild), Dagur Gautason (handknattleiksdeild), Frosti Brynjólfsson (knattspyrnudeild) og Karen María Sigurgeirsdóttir (knattspyrnudeild).
Dagur Gautason var valinn hjá strákunum en þrátt fyrir ungan aldur lék Dagur Gautason gríðarlega stórt hlutverk í liði KA sem vann sér sæti í efstu deild karla í sinni fyrstu tilraun sem nýtt lið í karlaflokki í handknattleik. Dagur, spilar sem vinstri hornamaður og gerði 66 mörk í Grill-66 deildinni en að auki leikur hann stórt hlutverk í vörninni. Dagur er hvetjandi, drífandi og gríðarlega brosmildur leikmaður. Hann hefur mikla ástríðu fyrir íþróttinni, sem og félaginu. Hugarfar hans er framúrskarandi Dagur æfir gríðarlega vel, gerir mikið aukalega og tekur tilsögn mjög vel. Seinasta sumar lék Dagur lykilhlutverk með U-18 ára landsliði Íslands sem vann silfurverðlaun á Evrópumótinu í Króatíu. Á mótinu var Dagur valinn í lið mótsins sem besti vinstri hornamaðurinn. Á fyrsta tímabili KA í efstu deild hefur hann núna simplað sig vel inn og m.a. valinn í lið fyrri hluta Íslandsmótsins í vinstra horninu af Seinni Bylgjunni.
Hjá stúlkunum var Karen María Sigurgeirsdóttir valin en Karen fékk smjörþefinn af meistaraflokksbolta árið 2017. Hún var því reynslunni ríkari fyrir þetta ár þar sem hún spilaði bæði með Hömrunum og Þór/KA. Hennar helsta afrek á árinu var að spila í Meistaradeild Evrópu. Karen María spilaði með Hömrunum varaliði Þór/KA í Lengjubikarnum og Inkasso deildinni framan af árinu. Þar fór hún með þeim í undanúrslit í C-deild Lengjubikarins og spilaði 11 leiki í Inkasso og skoraði þrjú mörk. Í félagsskiptaglugganum skipti hún yfir í Þór/KA þar sem hún spilaði 5 leiki í Pepsi og skoraði eitt mark. Karen María hjálpaði því liðinu að ná öðru sæti deildarinnar. Hún spilaði einnig 5 leiki í Meistaradeild Evrópu þar sem hún mætti t.d. Wolfsburg sem er eitt besta lið heims. Karen María spilaði einnig með 2. fl. félagsins sem komst í úrslitaleik bikarkeppni KSÍ en beið þar lægri hlut gegn FH.
Hluti af landsliðsfólki KA árið 2018
Þá heiðraði félagið alls 21 félagsmann sem lék landsleik á nýliðnu ári en það voru þau Ninna Rún Vésteinsdóttir, Jóna Margrét Arnarsdóttir, Alexander Arnar Þórisson, Anna Rakel Pétursdóttir, Aron Elí Gíslason, Daníel Hafsteinsson, Alex Máni Garðarsson, Sigþór Gunnar Jónsson, Dagur Gautason, Arnór Ísak Haddsson, Martha Hermannsdóttir, Hulda Bryndís Tryggvadóttir, Sólveig Lára Kristjánsdóttir, Ásdís Guðmundsdóttir, Aldís Ásta Heimisdóttir, Ólöf Marín Hlynsdóttir, Rakel Sara Elvarsdóttir, Svavar Sigmundsson, Alexander Heiðarsson, Hekla Dís Pálsdóttir og Berenika Bernat.
Vel var farið yfir frábært stórafmælisár KA sem nú er að baki og var af því tilefni endursýnt myndband sem gert var fyrir 90 ára afmælið þar sem stiklað er á ýmsu frá 90 ára sögu félagsins.