Flýtilyklar
Alexander og Berenika Íslandsmeistarar
Um helgina fór fram Íslandsmót fullorðinna í júdó en mótið var haldið í Laugardalshöll í Reykjavík. KA sendi 10 keppendur til leiks og kom heim með 2 Íslandsmeistaratitla, 2 silfur og 2 brons. KA var með annan besta árangur allra júdóklúbba á mótinu. Aðeins stærsti klúbbur landsins, JR var ofar okkur að stigum. Heildarlista keppenda og árangur þeirra má finna hér.
Berenika Bernat átti gríðarlega gott mót og sigraði opna flokk kvenna með glæsibrag. Berenika, sem er aðeins sautján ára, keppti þar við mun þyngri andstæðinga en í opna flokkinn mega allir keppendur skrá sig í, hver svo sem þyngd þeirra er. Auk íslandsmeistaratiltils hennar í opna flokknum hafnaði hún einnig í 2. sæti í -63kg. flokki kvenna.
Alexander Heiðarsson sigraði sinn þyngdarflokk með miklu öryggi. Alexander, sem einnig er aðeins 17 ára og 60kg., keppti í -66kg. flokki við gríðarlega reynda og öfluga keppendur. Hann gerði sér lítið fyrir og sigraði allar viðureignir sínar á Ippon og stóð uppi sem íslandsmeistari.
Edda Ósk Tómasdóttir átti mjög gott mót en hún varð í 2. sæti í -70kg. flokki og 3. sæti í opna flokki kvenna. Edda hefur undanfarin ár skipað sér í flokk þeirra bestu á Íslandi eins og árangurinn sýnir.
Dofri Vikar Bragason fékk brons í -66kg. flokki. Óhætt er að segja að árangurinn sé góður því þessi þyngdarflokkur var ákaflega sterkur.
Aðrir sem komust ekki á pall þeirra bestu á Íslandi stóðu sig engu að síður mjög vel. Við KA menn getum verið ákaflega stolt af árangri keppenda okkar og óskum þeim öllum sem og þjálfurum þeirra, þeim Önnu Soffíu Víkingsdóttur og Adam Brands Þórarinssyni, innilega til hamingju með árangurinn.