Undanúrslitin klár í Coca-Cola bikarnum

Handbolti

Dregið var í undanúrslit Coca-Cola bikars karla og kvenna í handboltanum í dag og voru bæði KA og KA/Þór í pottinum eftir frækna sigra í 8-liða úrslitum keppninnar á dögunum. Karlalið KA lagði Hauka að velli í spennuleik á meðan KA/Þór vann sannfærandi tíu marka sigur á HK.

Úrslitahelgin fer fram að Ásvöllum í Hafnarfirði og dróst KA/Þór gegn Fram og munu liðin mætast miðvikudaginn 9. mars. KA/Þór er einmitt ríkjandi bikarmeistari eftir sigur á Fram í úrslitaleik í haust og má reikna með hörkuleik. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Valur og ÍBV en þetta eru einmitt efstu fjögur liðin í deildarkeppninni og spennandi leikir framundan.

KA mætir hinsvegar liði Selfoss fimmtudaginn 10. mars í landsbyggðarslag en í hinni viðureigninni mæta Valsmenn sigurvegurunum úr viðureign Harðar/FH og Þórs Akureyri. KA hefur ekki tekið áður þátt í úrslitahelgi bikarkeppninnar frá því að þetta fyrirkomulag var sett á og spennandi að strákarnir séu komnir í höllina.

Úrslitaleikir karla og kvenna fara svo fram á laugardeginum 12. mars og því eina vitið að taka dagana frá og styðja okkar mögnuðu lið til sigurs. Þá má einnig geta þess að á sunnudeginum fara fram bikarúrslitaleikir yngriflokka og eru strákarnir á eldra ári 4. flokks komnir í úrslitaleikinn auk þess sem að 4. flokkur kvenna og yngra ár 4. flokks karla eru komin í undanúrslit keppninnar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is