Flýtilyklar
Rut lék sinn 100 A-landsleik
Rut Jónsdóttir náði þeim glæsilega áfanga í kvöld að leika sinn 100 A-landsleik fyrir Íslands hönd er Ísland mætti Svíþjóð á útivelli. Rut lék sinn fyrsta landsleik aðeins 17 ára gömul en hún hefur verið algjör burðarás í liðinu undanfarin ár.
Rut gekk eins og frægt er orðið til liðs við KA/Þór fyrir síðustu leiktíð og í kjölfarið hampaði liðið Íslands-, Bikar- og Deildarmeistaratitlinum auk þess að verða Meistari Meistaranna. Þar áður lék hún í 12 ár í Danmörku þar sem hún varð danskur meistari sem og bikarmeistari auk þess að sigra í EHF Cup.
Við óskum Rut innilega til hamingju með þennan glæsilega áfanga en hún er einungis tíundi leikmaðurinn í sögu kvennalandsliðsins til að ná 100 leikjum fyrir Íslands hönd.