Flýtilyklar
Óðinn og Rut bestu leikmenn Íslandsmótsins
Handknattleikssamband Íslands hélt uppskeruhátíð sína í dag þar sem leikmenn sem sköruðu framúr á nýliðnum handboltavetri voru heiðraðir. Óðinn Þór Ríkharðsson og Rut Arnfjörð Jónsdóttir voru valin bestu leikmenn Íslandsmótsins og er þetta annað árið í röð sem að KA og KA/Þór eiga besta leikmann tímabilsins.
Rut var þarna að hljóta þennan heiður annað árið í röð en hún fór fyrir liði KA/Þórs sem átti aftur frábæran vetur en stelpurnar urðu Bikarmeistarar í haust og gerðu flotta hluti í sínu fyrsta Evrópuverkefni. Ekki nóg með að vera valin besti leikmaður Olísdeildar kvenna þá var Rut einnig valin mikilvægasti leikmaður deildarinnar en hún dregur liðsfélaga sína upp á hærra plan með spilamennsku sinni.
Óðinn var ásamt því að vera besti leikmaðurinn valinn besti sóknarmaður Íslandsmótsins en Óðinn var markakóngur Olísdeildarinnar og átti heldur betur stórbrotið tímabil fyrir KA liðið sem tók mikilvægt skref fram á við í sinni þróun í vetur. Ekki nóg með að skila frábærri frammistöðu í gula og bláa búningnum í vetur þá skoraði Óðinn urmul af stórglæsilegum mörkum og má svo sannarlega segja að hann hafi spilað sig inn í hjörtu stuðningsmanna KA.
Við óskum þeim Óðni og Rut innilega til hamingju með verðlaunin sem eru heldur betur verðskulduð. Óðinn mun leika með svissneska stórliðinu Kadetten Schaffhausen á komandi leiktíð og óskum við honum alls hins besta á nýjum slóðum. Rut mun hinsvegar halda áfram að taka til sín fyrir norðan og verður áfram veisla að fylgjast með henni í búningi KA/Þórs.