Miðasala hafin á bikarveisluna!

Handbolti

KA og KA/Þór verða í eldlínunni þegar úrslitahelgi Coca-Cola bikarsins fer fram nú í vikunni. Framundan er svakaleg handboltaveisla þar sem bestu lið landsins í karla og kvennaflokki auk yngriflokka keppa um sjálfan bikarmeistaratitilinn.

Allir leikirnir fara fram að Ásvöllum í Hafnarfirði og hefst veislan á undanúrslitaviðureign KA og Selfoss klukkan 20:15 á miðvikudaginn. Daginn eftir klukkan 18:00 mætast svo KA/Þór og Fram í undanúrslitunum kvennamegin en liðin mættust einmitt í úrslitum keppninnar síðastliðið haust þar sem KA/Þór tryggði sér titilinn í fyrsta skiptið í sögunni.

Ef allt fer að óskum leika liðin okkar svo til úrslita á laugardeginum en það er alveg ljóst að við þurfum á öllum þeim stuðning sem í boði er. Bikarúrslitin eru í raun toppurinn í umgjörð í íslenskum handbolta og hrikalega gaman að sjá bæði okkar lið á sínum stað.

Á sunnudeginum fara svo fram úrslitaleikir yngriflokka og þar eigum við þrjú lið. Klukkan 13:00 mæta strákarnir á yngra ári 4. flokks KA liði Hauka, klukkan 15:00 mæta stelpurnar í 4. flokki KA/Þórs liði Aftureldingar og loks klukkan 17:00 mæta strákarnir á eldra ári 4. flokks KA liði Aftureldingar.

Miðasala á leiki meistaraflokkanna er hafin en hún fer einungis fram í miðasöluappinu Stubbur.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is