Flýtilyklar
KA/Þór og Rut tilnefnd í kjöri SÍ
Samtök íþróttafréttamanna tilkynntu í dag um tilnefningar sínar til íþróttamanns ársins, lið ársins og þjálfara ársins. Lið KA/Þórs er eitt þriggja liða sem koma til greina sem lið ársins og Rut Jónsdóttir er ein af þeim tíu sem koma til greina sem íþróttamaður ársins.
Þetta er gríðarlegur heiður og óskum við Rut og stelpunum innilega til hamingju. Úrslitin verða svo opinberuð 29. desember næstkomandi.
KA/Þór varð fjórfaldur meistari á árinu en stelpurnar urðu Íslands-, Bikar- og Deildarmeistarar auk þess að hampa titlinum Meistarar Meistaranna. Þær skutu mörgum sérfræðingunum ref fyrir rass með afreki sínu en fyrir tímabilið var þeim spáð 5. sæti í deildinni auk þess sem að titlarnir fjórir voru þeir fyrstu sem liðið vinnur í sögunni.
Rut Jónsdóttir leikmaður liðsins er í tíu efstu sætunum í kjöri íþróttamanns ársins en hún var á dögunum kjörin handknattleikskona ársins en hún fór fyrir liði KA/Þórs á árinu auk þess sem að hún spilaði sinn 100 landsleik fyrir Íslands hönd á árinu.
Hún skoraði 87 mörk í 14 deildarleikjum fyrir KA/Þór á síðustu leiktíð og var valin besti sóknarmaður og besti leikmaður Olísdeildar kvenna auk þess að fá Sigríðarbikarinn sem mikilvægasti leikmaður deildarinnar valinn af þjálfurum.
Rut sem er fyrirliði íslenska landsliðsins hefur nú leikið 104 landsleiki og skorað í þeim 215 mörk. Þetta er í annað sinn sem Rut hreppir nafnbótina handknattleikskona ársins en hún var síðast valin árið 2013. Hún hefur alla tíð verið verið mikil fyrirmynd bæði innan og utan vallar þar sem bæði yngri eldri iðkendur líta upp til hennar.