Jafntefli eftir háspennuleik (myndaveislur)

Handbolti
Jafntefli eftir háspennuleik (myndaveislur)
Einar, Jón og Raggi heiðraðir (mynd Þórir Tryggva)

KA tók á móti Aftureldingu í 19. umferð Olísdeildar karla í handbolta í KA-Heimilinu í gær og úr varð algjör háspennuleikur sem endaði loks með 25-25 jafntefli. Baráttan í deildinni er gríðarlega hörð nú þegar stutt er í úrslitakeppnina og ljóst að það verður mikil spenna í síðustu þremur umferðum deildarinnar.

Fyrir leik voru þeir Einar Birgir Stefánsson, Jón Heiðar Sigurðsson og Ragnar Snær Njálsson heiðraðir en þeir léku á dögunum sinn 100 leik fyrir KA.

Strákarnir okkar hafa verið á gríðarlegri siglingu að undanförnu en rétt eins og í síðasta leik gegn Fram á útivelli byrjuðu strákarnir ekki nægilega vel og gestirnir úr Mosfellsbænum tóku frumkvæðið. Sóknarleikurinn gekk illa og var staðan 5-9 er fyrri hálfleikur var hálfnaður. En öfugt við síðasta leik þurftu strákarnir ekki hálfleik til að koma sér í gang og þeir gerðu næstu þrjú mörk leiksins.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum

Í kjölfarið hótaði KA liðið að jafna metin og það tókst loks skömmu fyrir hlé í stöðunni 12-12, strákarnir gerðu reyndar ögn betur og náðu forystunni í 13-12 en gestirnir náðu að jafna metin í 13-13 með hálfgerðu flautumarki og spennan mikil fyrir síðari hálfleikinn.

Tímalína fyrri hálfleiks

Strákarnir voru komnir vel í gang og þeir tóku frumkvæðið í þeim síðari, þeir náðu í nokkur skipti tveggja marka forystu en ávallt komu gestirnir til baka. Er fjórar mínútur lifðu leiks var staðan 25-23 fyrir KA en enn og aftur komu Mosfellingar til baka og jöfnuðu í 25-25. Strákarnir fengu tækifæri á að tryggja sigurinn í síðustu sókn leiksins en þeir misstu boltann og jafntefli því niðurstaðan.

Tímalína seinni hálfleiks

Svekkjandi niðurstaða eftir að strákarnir höfðu verið með leikinn í sínum höndum á lokakaflanum en þegar litið er á leikinn í heild sinni er jafntefli líklega sanngjörn niðurstaða.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Ólafur Gústafsson fór hamförum í leiknum en hann gerði 8 mörk úr vinstri skyttunni auk þess að leika vel í vörninni. Óðinn Þór Ríkharðsson var í gjörgæslu nær allan leikinn en gerði engu að síður 5 mörk þar af eitt úr víti. Jón Heiðar Sigurðsson og Allan Norðberg gerðu 4 mörk hvor, Arnó Ísak Haddsson gerði 2 mörk og þeir Einar Birgir Stefánsson og Patrekur Stefánsson gerðu eitt mark hvor.

Í markinu varði Nicholas Satchwell 9 skot, þar af tvö vítaköst en gestirnir brenndu í heildina af þremur vítaköstum í leiknum.

Eftir leikinn er KA í 6.-7. sæti deildarinnar ásamt Stjörnunni með 20 stig og Mosfellingar koma þar fyrir aftan með 19 stig. Efstu átta liðin fara í úrslitakeppnina og ólíklegt að Grótta og Fram blandi sér í þá baráttu þegar þrjár umferðir eru eftir. Selfoss situr í 5. sæti deildarinnar með 22 stig og spennandi barátta framundan en KA á einmitt eftir að mæta Selfyssingum og geta strákarnir því endað í 5.-8. sæti deildarinnar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is