Flýtilyklar
Heimaleikir í úrslitakeppni yngriflokka
Það er komið að úrslitastundu á öllum vígsstöðvum í handboltanum og eru þrír heimaleikir framundan um helgina hjá yngriflokkum KA og KA/Þórs. Það er því heldur betur handboltaveisla framundan sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.
Á morgun, laugardag, taka stelpurnar í 3. flokki KA/Þórs á móti ÍR klukkan 12:00 en leikurinn er liður í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar. Stelpurnar hafa verið mjög flottar í vetur og alveg klárt að þær ætla sér áfram í undanúrslitin.
Í kjölfarið klukkan 17:00 mæta strákarnir á yngra ári 4. flokks karla liði Hauka í undanúrslitum. Liðin mættust í svakalegum bikarúrslitaleik fyrr á árinu þar sem Haukar unnu eins marks sigur með marki á lokasekúndunni og ekki nokkur spurning að strákarnir okkar hyggja á hefndir og sæti í úrslitum þar með.
Á sunnudaginn taka svo strákarnir á eldri ári 4. flokks á móti HK í undanúrslitum. Strákarnir eru ríkjandi Íslandsmeistarar frá síðustu leiktíð og hafa nú þegar hampað Deildar- og Bikarmeistaratitlinum á þessari leiktíð og alveg ljóst að þeir ætla sér áfram í lokaúrslitin með sigri á heimavelli.
Við hvetjum alla sem geta til að mæta í KA-Heimilið og styðja okkar mögnuðu lið í baráttunni. Þess má svo geta að stelpurnar í 4. flokki mæta Fram í undanúrslitum á þriðjudaginn í Framhúsinu en KA/Þór varð Bikarmeistari í flokknum fyrr á árinu.