Flýtilyklar
Fimm fulltrúar KA í U16 sem lagði Færeyinga
Íslenska landsliðið í handbolta skipað drengjum 16 ára og yngri lagði jafnaldra sína frá Færeyjum tvívegis í æfingaleikjum um helgina. KA átti alls fimm fulltrúa í hópnum en það eru þeir Dagur Árni Heimisson, Hugi Elmarsson, Jens Bergþórsson, Magnús Dagur Jónatansson og Óskar Þórarinsson.
Ekki nóg með það að eiga svo marga leikmenn í hópnum að þá er Heimir Örn Árnason annar þjálfara liðsins en Hrannar Guðmundsson stýrir liðinu með Heimi.
Í leik liðanna í gær leiddi Ísland 10-17 í hálfleik og vann að lokum afar sannfærandi 21-34 sigur þar sem allir leikmenn íslenska liðsins komu við sögu. Það má með sanni segja að strákarnir okkar hafi lagt sitt af mörkum í leiknum en þeir Hugi, Jens og Magnús voru markahæstir í liðinu með 5 mörk hver, Dagur gerði 4 mörk og þá varði Óskar 10 skot í markinu.
Liðin mættust í jafnari leik í dag en Ísland leiddi 11-12 í hléinu og landaði loks 22-25 sigri. Hugi var markahæstur okkar manna með 3 mörk, Magnús gerði 2 mörk og þeir Dagur og Jens gerðu sitthvort markið. Í markinu varði Óskar 4 skot.
Strákarnir voru þarna að leika sína fyrstu landsleiki og verður virkilega gaman að fylgjast áfram með þeim í landsliðsbúningnum. Strákarnir eru gríðarlega öflugir og metnaðarfullir en þeir urðu þrefaldir meistarar með eldra árs liði KA í vetur og hafa raunar ekki tapað leik undanfarin ár.