Tilnefningar til íþróttakarls KA 2024

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak | Lyftingar

Knattspyrnufélag Akureyrar heldur upp á 97 ára afmæli sitt sunnudaginn 12. janúar 2025 við hátíðlega athöfn í KA-Heimilinu klukkan 17:00. Við það tilefni verður íþróttakarl KA árið 2024 kjörinn en í þetta skiptið eru fimm aðilar tilnefndir frá deildum félagsins.

Þetta er í fimmta skiptið sem verðlaunin eru afhent hvoru kyni og hefur ríkt mikil ánægja með þá breytingu.

Alex Cambray hefur átt afbragðs ár í sinni íþrótt, kraftlyftingum. Hann setti nokkur Íslandsmet, náði fremsta árangri allra karlkyns keppanda á alþjóðamótum, ásamt því að hafa sigrað öll innlend mót ársins í búnaði óháð þyngdarflokki.

Hann sinnir stöðu formanns deildarinnar og er einnig yfirþjálfari kraftlyftinga innan hennar. Alex hefur verið drífandi í uppbyggingu lyftingadeildar KA og hefur hann fengið lof fyrir framgang sinn síðan deildin var stofnuð.

Í mars keppti Alex á Íslandsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði, þar sem hann átti gott mót og landaði Íslandsmeistaratitli í sínum þyngdarflokki. Varð hann þar stigahæsti lyftari mótsins óháð þyngdarflokki.

Í maí keppti Alex á Evrópumeistaramótinu sem haldið var í Lúxemborg. Þar keppti hann í sterkum flokk og lenti þar í 5. sæti. Alex sló á því móti íslandsmetið í samanlögðu, þar sem hann lyfti 840 kg samtals. Á mótinu lyfti hann 340 kg í hnébeygju, 207,5kg í bekkpressu og 292.5kg í réttstöðulyftu sem er Íslandsmet í hans flokk.

Almennt keppir Alex í -93 kg flokki, en í ágúst keppti hann á bikarmótinu í kraftlyftingum og ákvað þar að keppa í flokknum fyrir ofan sig, þ.e. -105 kg. Þar sló hann íslandsmet í -105 kg flokki í hnébeygju, með 360,5 kg, sem er stigahæsta hnébeygja sem hefur verið tekin á Íslandi frá upphafi. Á mótinu sigraði hann flokkinn sem og var stigahæstur óháð þyngdarflokki sem tryggði honum bikarmeistaratitilinn.

Núna í nóvember keppti Alex á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði sem haldið var hér á Íslandi. Gekk honum einnig vel á því móti og lenti þar í 9.sæti með 837.5 kg í samanlagðri þyngd sem og átti sérstaklega góðan dag í hnébeygju þar sem hann endaði í 6. sæti. Alex lýkur árinu sem fjórtándi öflugasti lyftari ársins á heimslista alþjóða kraftlyftingasambandsins (IPF) og í 7. sæti á styrkleikalista Evrópskra lyftingasambandsins (EPF).

Daði Jónsson, 27 ára gamall leikmaður KA í handbolta, er tilnefndur frá handknattleiksdeild til íþróttamanns KA.

Daði er einn mikilvægasti leikmaður KA þessi dægrin. Hann er uppalinn hjá félaginu og kom aftur til liðs við KA í nóvember 2023, eftir smá ferðalag til Danmerkur. Daði getur spilað margar stöður á vellinum en hefur aðallega leikið í vinstra horni í sókn á þessu tímabili. Þá er hann gríðarlega öflugur varnarlega og sýnir mikið KA hjarta innan sem utan vallar. Þetta er einn harðasti KA maður liðsins og myndi gera allt fyrir félagið, hann svo sannarlega lifir fyrir KA.

Hann er einn af þremur fyrirliðum liðsins og er mjög mikilvægur í hópnum. Hans framlag verður seint metið á tölfræðiblaði enn í fyrra var hann stór hluti af liðinu sem komst í 8-liða úrslit Íslandsmótsins. Um þessar mundir er KA í 8.-9. Sæti og í 8-liða úrslitum í bikarkeppninni.

Gísli Marteinn er tilnefndur fyrir hönd Blakdeildar KA en Gísli sem er fyrirliði liðsins spilar stöðu miðju í sterku liði KA. Gísli er lykil leikmaður í KA liðinu bæði í vörn og sókn en hann stoppar margar sóknir andstæðinganna með frábærri hávörn auk þess sem hann skilar ófáum sóknarboltum beint í gólf.

Undanfarin ár hefur hann verið einn blokkhæsti leikmaður efstu deildar og vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína. Hann er góður liðsfélagi og leggur sig allan fram á æfingum. Hann var valinn í úrvalslið ársins sem miðja af Blaksambandi Íslands fyrir síðasta tímabil. 

Hans Viktor var valinn leikmaður tímabilsins á lokahófi knattspyrnudeildar. Hans Viktor hafði allan sinn feril leikið í Fjölni áður en hann skipti yfir í KA í lok árs 2023. Hann kom strax inn í KA af miklum krafti og sýndi og sannaði að hann yrði lykilmaður í liðinu.

Hann er stór og stæðilegur miðvörður sem er öflugur í návígjum, fljótur og góður að spila boltanum. Hugarfarið hans er til fyrirmyndar þar sem hann gefur alltaf allt í leikinn og heldur haus þegar illa gengur. Hann var einn af ljósum punktum liðsins þegar illa gekk í byrjun sumars en hápunktur tímabilsins var þegar hann átti stórkostlegan leik á Laugardalsvelli þegar liðið varð Bikarmeistari í fyrsta skiptið í sögu félagsins.

Júdódeild KA hefur útnefnt Samir Ómar Jónsson sem Júdókarls ársins 2024, með hliðsjón af árangri hans í keppni, virkni í starfi deildarinnar og jákvæðri framkomu.

Á árinu 2024 náði Samir eftirtektarverðum árangri í bæði yngri flokkum og fullorðinsflokki. Á Íslandsmóti yngri flokka tryggði hann sér tvenn þriðju sæti í U18 og U21 keppnisflokkum í -66 kg þyngdarflokki. Einnig náði hann öðru sæti í fullorðinsflokki á Vormóti JSÍ og þriðja sæti í U18 flokki á Vormóti yngri flokka. Þessi árangur endurspeglar bæði hæfileika hans og framfarir í íþróttinni.

Samir hefur einnig tekið virkan þátt í starfi deildarinnar utan keppnisvalla, meðal annars með því að þjálfa yngri iðkendur og vera til fyrirmyndar sem æfingafélagi. Framlög hans hafa haft jákvæð áhrif á umhverfið í kringum hann og styrkt starfsemi deildarinnar.

Júdódeild KA óskar Samir innilega til hamingju með þessa viðurkenningu og þakkar honum fyrir framlag sitt til íþróttarinnar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is