KA-Heimilinu og öðrum íþróttamannvirkjum lokað

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Júdó | Blak | Tennis og badminton

Öllum íþróttamannvirkjum Akureyrarbæjar verður lokað á meðan samkomubann er í gildi að að frátöldum sundlaugum. Fyrr í dag kom tilkynning frá ÍSÍ um að æfingar yngriflokka falli niður á meðan samkomubannið er í gildi en nú er ljóst að KA-Heimilinu verður einfaldlega lokað.

Tilkynning Akureyrarbæjar.

Vegna tilmæla frá sóttvarnalækni er nauðsynlegt að loka Hlíðarfjalli og öllum íþróttamannvirkjum Akureyrarbæjar, að frátöldum sundlaugum, á meðan samkomubann og takmarkanir á skólastarfi gilda.

Heilbrigðisráðuneytið, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið, gaf í dag út leiðbeinandi viðmið um hvernig beri að túlka takmörkun á samkomum og skólastarfi í tengslum við íþrótta- og æskulýðsstarf. Mælst er til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu þar til takmörkun skólastarfs lýkur.

Sóttvarnarlæknir sendi í kjölfarið frá sér áréttingu þar sem kemur fram að sameiginleg notkun á hvers konar búnaði til íþróttaiðkunar, boltum, dýnum, rimlum, handlóðum, skíðalyftum og margs fleiru án góðrar sótthreinsunar á milli notkunar einstaklinga sé mjög varasöm og ekki í anda fyrirmæla um sóttvarnir. Því er augljóst, að mati sóttvarnalæknis, að í flestum íþróttum er nánast ómögulegt að æfa eða keppa. Íþrótta- og Ólympíusamband Ísland og Ungmennafélag Íslands sendu í kjölfarið frá sér fréttatilkynningu um að allt íþróttastarf falli tímabundið niður. 

Samtök skíðasvæða hefur nú brugðist við þessum tilmælum yfirvalda. „Því miður tilkynnist hér með að allar skíðalyftur og brekkur frá þeim loka frá og með deginum í dag og mun sú lokun vara meðan á samkomubanni stendur," segir í sameiginlegri yfirlýsingu.

„Við hjá Samtökum skíðasvæða á Íslandi ætlum að virða þessi tilmæli og loka hluta svæðanna eða öllu sem snýr að skíðalyftum, en höfum áfram opnar skíðagöngubrautir en með tilmælum um að ekki sé neitt hópastarf eða samsöfnun á fólki á þeim svæðum heldur eingöngu til æfinga einstaklingsbundið þar sem 2 metra reglan um návígi er viðhöfð. Ef ekki verður farið eftir þeim tilmælum munum við einnig þurfa að loka þeim svæðum.

Þetta er áfall jafnt fyrir okkur sem reka skíðasvæðin sem og viðskiptavini okkar en við vonumst til að allir sýni þessu skilning og þolinmæði."

Þetta þýðir að skíðasvæðið í Hlíðarfjalli verður lokað á meðan samkomubanni stendur, að frátöldum göngubrautum, og sama gildir um öll önnur íþróttamannvirki Akureyrarbæjar, að sundlaugum frátöldum. Þetta eru: Íþróttahöllin, Íþróttahús Glerárskóla, Íþróttamiðstöð Giljaskóla, Íþróttahús Síðuskóla, Íþróttahús Naustaskóla, Íþróttahús Oddeyrarskóla, Boginn, Íþróttahús KA, Skautahöllin, Reiðhöllin og Íþróttahúsið í Hrísey.

Það er miður að þurfa að grípa til þessara ráðstafana, en nauðsynlegt í ljósi aðstæðna og til að fylgja tilmælum stjórnvalda. Akureyrarbær mun eftir fremsta megni hvetja til og liðka fyrir hvers konar útivist og hreyfingu bæjarbúa sem rúmast innan þeirra takmarkana sem gilda.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is