Tilnefningar til liðs ársins hjá KA 2024

Almennt | Fótbolti | Handbolti | Blak

Sjö lið eru tilnefnd til liðs ársins hjá KA á árinu 2024 en þetta verður í fimmta skiptið sem verðlaun fyrir lið ársins verða veitt. Margir glæsilegir sigrar unnust á árinu sem nú er liðið og bættust við fjölmargir titlar bæði hjá meistaraflokksliðum okkar sem og yngriflokkum.

Valið verður kunngjört á afmælisfögnuði KA sunnudaginn 12. janúar í íþróttasal KA-Heimilisins og hefst veislan klukkan 17:00, allir velkomnir.

KA varð Mjólkurbikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins í sumar en þetta var jafn fram annar stóri titill félagsins í knattspyrnu karla. Með sigrinum þá verður KA í Evrópukeppni sumarið 2025 sem er gífurlega mikilvægt fyrir félagið. Liðið vann úrslitaleikinn nokkuð sannfærandi 2-0 gegn þáverandi Bikarmeisturum Víkings á Laugardalsvelli. Dagurinn var frábær í alla staði en Akureyringar fjölmenntu suður og áttum við stúkuna, slík var stemningin. Á leið sinni í úrslitaleikinn vann liðið Lengjudeildarlið ÍR og Bestudeildarlið Vestra, Fram og Vals. Leiðin var því alls ekki létt og er liðið vel að titilinum komið.

Í fyrsta sinn í sögu KA varð 2. flokkur karla Íslandsmeistari í knattspyrnu. Leikin er lotukeppni í 2. flokk þar sem að okkar menn voru í A-deild í öllum lotum. Í úrslitalotunni þá byrjuðu okkar menn ekkert sérstaklega og voru einungis með 3 stig eftir 3 leiki. Í kjölfarið unnu strákarnir fimm síðustu leikina sem þýddi að fyrir síðasta leikinn voru þeir efstir. Strákarnir fengu Stjörnuna í heimsókn í lokaleiknum þar sem jafntefli myndi líklega duga til sigurs. Okkar menn unnu sanngjarnan sigur og hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum. Sigurinn þýðir að KA verður með lið í UEFA Youth League næsta haust.

Flokkurinn varð Íslands- og bikarmeistari eftir að vera lang öflugasta liðið í deildarkeppninni. Liðið vann 12 af 14 leikjum liðsins og var 8 stigum á undan Selfossi sem enduðu í 2. sæti. Sömu lið mættust í bikarúrslitum þar sem okkar stúlkur unnu sannfærandi 4-1 sigur. Í okkar liði eru margar efnilegir leikmenn sem hafa leikið með meistaraflokki Þór/KA og yngri landsliðum Íslands.

KA strákarnir í 2012 árgangnum áttu frábært tímabil þar sem þeir urðu Íslandsmeistarar en strákarnir stóðu ákaflega vel og unnu þrjár af fjórum túrneringum vetrarins. Þeir hafa svo haldið uppteknum hætti í vetur þar sem þeir eru komnir í bikarúrslit og eru áfram í harðri baráttu að verja Íslandsmeistaratitilinn.

2012 árgangur kvenna áttu stórkostlegt tímabil þar sem þær urðu bæði Íslands- og Bikarmeistarar. Lið 1 vann allar túrneringarnar á síðasta keppnistímabili og hafa ekki tapað keppnisleik á sínum keppnisferli. Stelpurnar eru sannarlega innblástur og fyrirmyndir yngstu iðkennda KA/Þórs og KA en í vetur eru stelpurnar áfram á toppnum í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn auk þess sem þær eru komnar í bikarúrslit.

Meistaraflokkur kvenna í blaki átti enn eitt frábært tímabil og vann þrjá titla af fjórum sem hægt var að vinna á tímabilinu 2023-24. Meistari meistaranna, Deildar- og Íslandsmeistarar. Þetta er þriðja árið í röð sem KA er Íslandsmeistari kvenna og hefur verið magnað að fylgjast með sigurgöngu liðsins þrátt fyrir miklar breytingar á liðinu undanfarin ár.

Í lok síðasta tímabils átti liðið tvo fulltrúa í liði ársins sem valið er af þjálfurum, fyrirliðum og frammistöðu samkvæmt tölfræði BLÍ, þetta voru þær Helena Kristín og Julia Bonet sem báðar spila kant. Eins var Julia Bonet valinn besti erlendi leikmaðurinn í úrvalsdeildarinni.

Stúlkurnar í U16 urðu bikarmeistarar í sínum aldursflokki og náðu jafnframt silfrinu í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Það er frábært að sjá hvernig yngri flokka starfið er að skila sér lengra og lengra upp í aldursflokkunum og eru nú þegar nokkrir leikmenn U16 farnar að æfa og æfa og spila með sterku meistaraflokksliði KA.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is