Svekkjandi jafntefli gegn HK

Almennt
Svekkjandi jafntefli gegn HK
Mynd - Sævar Geir

KA gerði í dag 1-1 jafntefli við HK á Greifavellinum í 20.umferð Pepsi Max deildarinnar. Gestirnir í HK skoruðu jöfnunarmarkið á síðustu sekúndu leiksins þegar að uppgefin uppbótartími var liðin.

KA 1 – 1 HK

1 – 0 Ásgeir Sigurgeirsson (’7) Stoðsending: Alexander Groven

1 – 0 Rautt spjald (tvö gul): Björn Berg Bryde (’75)

1 – 1 Emil Atlason (’90+6)

Áhorfendatölur:

690 áhorfendur

Lið KA:

Kristijan Jajalo, Hrannar Björn, Hallgrímur J (fyrirliði), Callum Williams, Alexander Groven, Almarr Ormars, Iosu Villar, Andri Fannar, Hallgrímur Mar, Ásgeir Sigurgeirs og Elfar Árni.

Bekkur:

Aron Dagur, Haukur Heiðar, Brynjar Ingi, David Cuerva, Nökkvi Þeyr, Torfi Tímoteus og Bjarni Aðalsteins.

Skiptingar:

Nökkvi Þeyr inn – Ásgeir Sigurgeirs út (’73)

Bjarni Aðalsteins inn – Andri Fannar út (’81)

Torfi Tímoteus inn - Hallgrímur J út (’86)

Liðið í dag

KA og HK mættust í dag á Greifavellinum á Akureyri í 20. umferð Pepsi Max deildarinnar. KA liðið var í 10.sæti deildarinnar fyrir leikinn í dag með 24 stig en gestirnir í HK í því sjötta með 25 stig. KA gerði eina breytingu á byrjunarliðinu frá sigrinum gegn Grindavík í síðustu umferð en fyrirliðinn Hallgrímur Jónasson kom inn í liðið í stað Torfa Tímoteusar.

Gestirnir í HK hófu leikinn á því að Bjarni Gunnarsson slapp í gegnum vörn KA eftir aðeins þriggja mínútna leik en skot hans úr þröngri stöðu rétt framhjá. KA liðið sótti hins vegar í sig veðrið og eftir einungis sjö mínútna leik braut KA ísinn en þá endaði boltinn hjá Alexander Groven eftir hornspyrnu sem framlengdi honum inn í teiginn á Ásgeir sem tók boltann á lofti í fyrsta og skoraði flott mark og KA komið yfir 1-0. Fyrsta mark Ásgeirs í sumar.

Eftir markið sýndi KA lipra takta og komust Hrannar Björn og Almarr nálægt því að bæta í forystuna í bæði skiptin eftir laglegan samleik við Hallgrím Mar. En inn vildi boltinn ekki.

Síðustu tuttugu mínútur hálfleiksins voru gestirnir í HK ívið meira með boltann og sóttu meira að marki KA. Án þess þó að skapa sér nein teljandi marktækifæri. KA liðið fór með 1-0 foryustu inn í hálfleikinn og var hún verðskulduð.

Síðari hálfleikur hófst líkt og sá fyrri endaði með yfirburðum gestanna sem héldu boltanum meira og voru líklegri. KA gerði tilkall til vítaspyrnu þegar að Björn Berg Bryde braut á Elfari Árna innan teigs eftir 63. mínútna leik en Erlendur dómari leiksins var viss í sinni sök og ekkert víti dæmt. Stuttu seinna átti Andri Fannar góða fyrirgjöf fyrir markið þar sem minnstu mátti muna að Hallgrímur kæmist í boltann en hann fór rétt framjá honum.

Þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum gerðist Björn Berg Bryde brotlegur á Elfari Árna á miðjum vellinum og fékk hann því sitt seinna gula spjald og gestirnir í HK því manni færri það sem eftir lifði leiks.

Gestirnir úr Kópavoginum komust nálægt því að skora þegar að fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma þegar að Elfar Árni bjargaði á línu.

Erlendur Eiríksson dómari leiksins bætti við 5 mínútum við leikinn og þegar að þær voru liðnar fékk HK hornspyrnu. Emil Atlason stakk sér þá framfyrir varnarmenn KA á nærstönginni og stangaði boltann í netið á síðustu sekúndu leiksins og jafnaði metin fyrir gestina. Erlendur flautaði leikinn af þegar að KA tók miðjuna og því mátti þetta ekki tæpara standa og hægt að setja spurningamerki við það hvort leiktímanum hafi í raun ekki verið lokið þegar að HK skoraði en sárgrætilegt jöfnunarmark niðurstaðan.

KA-maður leiksins: Elfar Árni Aðalsteinsson (Var algjör lykill í uppspili KA í leiknum,hélt bolta vel og skapaði oft góðar stöður fyrir samherja sína.)

Næsti leikur KA er á sunnudaginn eftir viku þegar að við sækjum nýkrýnda bikarmeistara Víkings heim á Heimavöll hamingjunar í Fossvoginum kl. 14:00 í næst síðustu umferð Pepsi Max deildarinnar. Við hvetjum alla KA menn sem hafa tök að mæta á völlinn að styðja við bakið á liðinu. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is