Kristjana og Jens hlutu Böggubikarinn

Almennt | Handbolti
Kristjana og Jens hlutu Böggubikarinn
Kristjana og Jens eru vel að heiðrinum komin

Böggubikarinn var afhentur í ellefta skiptið í dag á 97 ára afmælisfögnuði KA en en hann er veittur bæði dreng og stúlku sem þykja efnileg í sinni grein en eru ekki síður sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi.

Böggubikarinn er veittur í minningu Sigurbjargar Níelsdóttur, Böggu, sem fædd var þann 16. júlí 1958 og lést þann 25. september 2011. Bróðir Böggu, Gunnar Níelsson, er verndari verðlaunanna en þau voru fyrst afhend árið 2015 á 87 ára afmæli KA.

Alls voru fimm stúlkur og sex drengir tilnefnd í ár en hægt er að sjá þau sem tilnefnd voru hér:

Tilnefningar til Böggubikars stúlkna
Tilnefningar til Böggubikars drengja

Kristjana Ómarsdóttir varð á árinu Evrópumeistari í hópfimleikum blandað lið unglinga 2024, keppnin fór fram í Baku Aserbaísjaní október síðastliðnum. Kristjana hefur æft fimleika frá 3 ára aldri og þrátt fyrir ungan aldur 15 , (16 ára nú í janúar) hefur hún keppt “uppfyrir” sig síðastliðinn ár með Fimak (nú Fimleikadeild KA).

Haustið 2023 gat deildin ekki haldið úti meistarflokki vegna þjálfarleysis en Kristjana hélt áfram æfingum með jafnöldrum sínum. Hún var þá byrjuð að mæta á hæfileikamótunaræfingar og úrvalsæfingar fyrir sunnan. Síðastliðið sumar var hún valin í landslið unglinga til að taka þátt í Evrópumótinu.

Krístjana “flutti” tímabundið suður til að geta mætt á landsliðsæfingar og stundaði nám sitt við Síðuskóla í fjarnámi. Kristjana er ekki bara frábær íþróttakona og fyrirmynd yngri iðkenda. Hún vill standa sig vel í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Hörku námsmaður og sinnir félagslífi skólans af eins miklum krafti og henni er unnt.

Jens Bragi er einstaklega duglegur íþróttamaður, Hann er sterkur félagslega í meistaraflokki KA og setur alltaf markið hátt á æfingum. Hann ýtir undir að aðrir leikmenn leggja meira á sig á æfingum og utan æfinga. Jens er alltaf að leita leiða til þess að bæta sig og er duglegur við það að leita sér fróðleiks frá þeim sem eru í kringum hann.

Jens Bragi er einstaklingur sem stefnir hátt í sinni íþróttagrein og er hluti af sterkum 2006 árgangi hjá KA sem varð bikarmeistari unglinga í vor.

Jens hefur einnig verið hluti af U-18 sem náði eftirtektarverðum árangri í sumar þar sem þeir enduðu í 4. sæti á EM í Svartfjallalandi.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is