Blaklið KA tryggði fyrsta Íslandsmeistaratitilinn

Blak
Blaklið KA tryggði fyrsta Íslandsmeistaratitilinn
KA liðið átti titilinn svo sannarlega skilinn!

KA varð Íslandsmeistari í blaki karla í fyrsta skiptið árið 1989 og var þetta fyrsti Íslandsmeistaratitill KA í meistaraflokki í liðsíþrótt. Knattspyrnulið KA fylgdi svo eftir um sumarið með sínum fræga titli en KA hefur í dag orðið sex sinnum Íslandsmeistari í blaki karla.

Blaklið KA hafði mikla yfirburði tímabilið 1988-1989 en liðið var taplaust bæði í Deildarkeppninni sem og í úrslitakeppninni. Aðeins tapaðist einn leikur allan veturinn en það var í Bikarkeppninni gegn Þrótti. Það má því að segja að sigur KA-liðsins á Íslandsmótinu hafi verið fyllilega verðskuldaður.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá Íslandsmeistaraliðið glæsilega. Aftari röð frá vinstri: Hou Xiao Fei, Stefán Magnússon, Stefán Jóhannesson, Óskar Aðalbjörnsson, Gunnar Garðarsson, Sigurður Arnar Ólafsson og Kristján Sigurðsson.
Fremri röð frá vinstri: Jón Vídalín, Oddur Ólafsson, Magnús Aðalsteinsson, Haukur Valtýsson fyrirliði, Pétur Ólafsson, Karl Hinriksson og Arngrímur Arngrímsson.
Á myndina vantar Einar Sigtryggsson.

Liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í dramatískum leik gegn ÍS í Íþróttahöllinni á Akureyri fyrir framan rúmlega 300 manns. Það var greinilegt að pressan sem var í loftinu hafði náð til leikmanna KA því liðið náði ekki að leika sinn besta leik en sýndi engu að síður flottan karakter gegn öflugu liði ÍS.

"Það var mikil taugaspenna í byrjuninni sem olli því að við lékum illa, móttakan var léleg og sömuleiðis uppspilið og vörnin. En okkur tókst að komast yfir þetta þegar leið á leikinn og það er langþráður titill sem nú er kominn í höfn" sagði Haukur Valtýsson fyrirliði KA liðsins.


Sigurður Arnar Ólafsson lætur til sín taka í leiknum gegn ÍS

Stúdentar höfðu undirtökin í fyrstu hrinunni, komust í 0-5 og sigruðu hana að lokum 8-15. KA liðið kom mun ákveðnara til leiks í þeirri næstu og sneri dæminu við. Hou Xiao Fei spilandi þjálfari KA liðsins fór mikinn í hrinunni og fór fyrir 15-8 sigri KA sem jafnaði þar með metin.

Hinir fjölmörgu áhorfendur sem lögðu leið sína í Höllina önduðu nú léttar enda bjuggust þeir við að KA myndi nú sýna sínar bestu hliðar. En ÍS ætlaði sér greinilega ekki að færa þeim gulklæddu Íslandsmeistaratitilinn á silfurfati. Þriðja hrinan var hinn mesti barningur. Jafnt var á flestum tölum allan leikinn og skiptust liðin á að vinna uppgjöfina. En Stúdentar voru sterkari á lokasprettinum og sigruðu 12-15.

Nú voru jafnvel hörðustu KA-menn í áhorfendastúkunni farnir að verða nokkuð órólegir. En grimmir leikmenn KA æddu inn á völlinn með Íslandsmeistaraglampa í augunum. Stefánarnir hrukku í gang og Haukur fór að spila upp eins og engill. Það var ekki að sö0kum að spyrja að skothríðin dundi á ÍS-mönnum og áttu þeir ekkert svar við henni. Lokatölur urðu 15-5 og oddahrina framundan.


Íslandsmeistarar KA eftir leikinn gegn ÍS

Efri röð frá vinstri: Sigurður Arnar Ólafsson, Óskar Aðalbjörnsson, Gunnar Garðarsson, Stefán Jóhannesson, Stefán Magnússon, Hou Xiao Fei spilandi þjálfari.
Fremri röð frá vinstri: Einar Sigtryggsson, Magnús Aðalsteinsson, Haukur Valtýsson fyrirliði, Jón Vídalín, Oddur Ólafsson og Pétur Ólafsson.

Áhorfendur létu vel í sér heyra og strax frá fyrstu uppgjöf varð ljóst að KA var komið til að sigra. Þeir skoruðu fyrstu þrjú stigin, komust svo í 6-1 og hrinan var einstefna. Að vísu tókst ÍS aðeins að klóra í bakkann en hrinunni lauk með öruggum sigri KA 15-8 og þar með tryggði liðið sér Íslandsmeistaratitilinn.

Hou Xian Fei hélt liðinu á floti lengst af í leiknum og lék geysivel. Þá var Haukur Valtýsson góður í uppspilinu að venju og Sigurður Arnar Ólafsson átti góða kafla er leið á leikinn.


Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir frá blakliðinu árið 1989

Mál til komið!

"Þetta er að sjálfsögðu stórkostleg tilfinning. Ég hef aldrei orðið Íslandsmeistari og það var mál til komið!" sagði Haukur Valtýsson hinn snjalli fyrirliði KA-liðsins eftir að liðið hafði tryggt sér titilinn.

"Þetta var erfiður leikur og ekki sérstaklega vel spilaður af okkar hálfu. Við vorum hálf taugaóstyrkir í byrjun og vörnin var mjög slök. ÍS náði því að skora ódýr stig en við náðum okkur sem betur fer á strik og titillinn er okkar" sagði fyrirliðinn með bros á vör.

"Við erum mjög vel að þessu komnir. Það var góður stígandi í liðinu fram að úrslitakepnninni, við döluðum hinsvegar aðeins framan af henni en höfum svo verið að ná okkur á strik aftur. Sumir hafa sagt okkur hafa verið heppna í leikjum okkar í vetur, en ég er því alfarið ósammála. Menn voru nokkuð strekktir fyrir þennan leik, því það má segja að einungis tveir menn í liðinu hafi leikið jafn mikilvægan leik og þennan áður og kom það vissuelga niður á spilamennsku okkar íd ag. En þetta hafðist og við erum að vonum ánægðir."

Ánægður með stígandann

"Þetta hefur verið nokkuð góður vetur hjá okkur og ég er ánægður með stígandann í liðinu. KA er með marga unga leikmenn sem hafa verið að öðlast reynslu í vetur, og hefur þeim gengið mjög vel" sagði Fei, hinn kínverski þjálfari KA eftir sigurinn á ÍS og þar með á Íslandsmótinu.

"Það er erfitt fyrir okkur að vera hér á Akureyri vegna þess að við fáum litla leikæfingu þar sem hér er einungis eitt blaklið á meðan liðin fyrir sunnan geta leikið sín á milli. Það má hinsvegar segja að önnur hlið sé á þessu málið; hún er sú að hin liðin þekkja okkur ekki eins vel" sagði Fei.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is