Flýtilyklar
Bjarni Jóhannsson ráðinn þjálfari mfl. KA í knattspyrnu
Bjarni Jóhannsson er næsti þjálfari meistaraflokks KA í knattspyrnu. Bjarni og Gunnar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar KA, skrifuðu undir samning þess efnis í KA-heimilinu síðdegis í dag og er samningurinn til þriggja ára.
Bjarni er einn af reynslumestu þjálfurum landsins. Hann hóf þjálfun hjá sínu uppeldisfélagi, Þrótti í Neskaupstað, árið 1985 og síðan lá leið hans til Sauðárkróks þar sem hann þjálfaði Tindastól um fjögurra ára skeið. Síðan hefur Bjarni þjálfað Grindavík, Breiðablik, Fylki, ÍBV og Stjörnuna, þar sem hann hefur verið þjálfari undangengin fimm keppnistímabil. Undir hans stjórn komst Stjarnan í bikarúrslit í fyrsta skipti í sögu félagsins. Stjarnan endaði í 5. sæti Pepsídeildarinnar í ár.
Það segir sína sögu um hversu reynslumikill Bjarni er í þjálfuninni að hann hefur stýrt liðum í yfir 240 leikjum í efstu deild og þar af eru sigrarnir 106 – sem er næstbesti árangur þjálfara í efstu deild á Íslandi, aðeins Ásgeir heitinn Elíasson skilaði fleiri sigurleikjum. Í tvígang hefur Bjarni fagnað Íslandsmeistaratitli sem þjálfari ÍBV – árin 1997 og 1998 - og þá hefur hann sömuleiðis í tvígang stýrt liðum til sigurs í bikarnum, árið 1998 með Eyjamönnum og 2001 með Fylki.
Sem leikmaður í meistaraflokki spilaði Bjarni með Þrótti í Neskaupstað og einnig spilaði hann með Íþróttabandalagi Ísafjarðar, Tindastóli og síðast en ekki síst var Bjarni leikmaður KA sumarið 1984.
„Ég lít á þjálfun KA-liðsins sem spennandi og ögrandi verkefni sem ég hlakka til að takast á við. Ég hef lengi sagt að ég gæti vel hugsað mér að flytja út á land og þegar þessi möguleiki kom upp taldi ég að rétta tækifærið væri komið. Ég er dreifbýlismaður og það sakar heldur ekki að ég hef ríkar taugar til KA frá því að ég spilaði þar sumarið 1984. Að vísu átti ég við töluverð meiðsli að stríða þetta sumar og því urðu leikirnir ekki eins margir með KA og ég hefði kosið. En æ síðan hef ég haft miklar taugar til KA og Akureyrar. Mér sýnist KA vera sterkur klúbbur og þar innanborðs eru margir spennandi leikmenn. Á íslenskan mælikvarða er KA tvímælalaust stórt knattspyrnufélag sem á reglulega leikmenn í unglingalandsliðum Íslands. Það segir sína sögu. Því miður hefur félagið misst alltof marga leikmenn frá sér á undanförnum árum og þá þróun verður að stoppa. Ef leikmenn úr KA vilja taka næsta skref tel ég að eigi að horfa út fyrir landssteinana en ekki til annarra félaga hér á landi,“ segir Bjarni, sem kemur til með að flytja til Akureyrar. „Já, að sjálfsögðu geri ég það. Akureyri er spennandi kostur og það sakar ekki að þar eru tvær dætur mínar í háskóla og sömuleiðis afabarn. Sem skíðaáhugamaður verður ekki ónýtt að hafa Hlíðarfjall í næsta nágrenni.“
Bjarni segir alltof snemmt að setja sér einhver markmið með KA-liðið. „Nei, það er ekki tímabært. Ég ætla að byrja á því að anda vel að mér loftinu á Akureyri og kynnast leikmönnunum í liðinu. Það verður fyrsta skrefið. En ég hef lengi fylgst með KA-liðinu úr fjarlægð og sá nokkra leiki þess sl. sumar. Það býr heilmikið í liðinu að mínu mati sem gaman verður að vinna með,“ segir Bjarni.
Sem fyrr segir býr Bjarni yfir mikilli reynslu sem meistaraflokksþjálfari. Nýliðið tímabil með Stjörnunni var hans 27 í þjálfun. Fær hann aldrei leið á þessu starfi? „Nei, því fer víðs fjarri. Það er ekki hægt að fá leið á því að vinna með ungu fólki. Það er ný og skemmtileg áskorun á hverjum degi. Þjálfun er ólíkt skemmtilegri en að sitja lon og don við tölvu. Það eru svo sem engin slitastjórnarlaun í þessu, en í eðli sínu er þetta starf í stöðugri þróun og maður verður að endurnýja sig reglulega og fylgjast með nýjustu straumum og stefnum í fótboltanum, sem er í stöðugri þróun,“ segir Bjarni Jóhannsson, þjálfari mfl. KA í knattspyrnu.
Gunnar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar KA, segist vera mjög ánægður með að samningur við Bjarna sé í höfn. „Já, ég er afar sáttur við að KA njóti starfskrafta Bjarna Jóhannssonar næstu árin. Með honum fáum við reynslumikinn þjálfara sem hefur náð prýðilegum árangri, nú síðast með Stjörnuna í Garðabæ. Undir stjórn Gunnlaugs Jónssonar og Ingvars Más Gíslasonar hefur KA-liðið tekið greinilegum framförum á síðustu tveimur árum og ég er þess fullviss að Bjarni kemur til með að byggja upp enn öflugra KA-lið á þessum góða grunni. Bjarni spilaði með KA eitt tímabil fyrir 28 árum eða svo og ég veit að æ síðan hefur hann haft sterkar taugar til félagsins. Þrátt fyrir annir í störfum fyrir önnur félög hefur Bjarni verið duglegur í gegnum árin að mæta á völlinn og fylgjast með KA-liðinu. Ég veit að ég mæli fyrir hönd KA-manna nær og fjær þegar ég býð Bjarna hjartanlega velkominn á fornar slóðir. Við KA-menn væntum mikils af störfum hans fyrir félagið,“ segir Gunnar Níelsson.