Arnór, Jóhannes og Sverre í goðsagnarhöllina

Handbolti
Arnór, Jóhannes og Sverre í goðsagnarhöllina
Frábærir fulltrúar KA (mynd: Þórir Tryggva)

Þeir Arnór Atlason, Jóhannes Gunnar Bjarnason og Sverre Andreas Jakobsson voru vígðir inn í goðsagnarhöll handknattleiksdeildar KA fyrir leik KA og Stjörnunnar sem fór fram í KA-Heimilinu í gær.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands var á leiknum en bróðir hans Patrekur Jóhannesson stýrir liði Stjörnunnar. Patrekur er rétt eins og þeir Arnór, Jóhannes og Sverre í goðsagnarhöll KA en Patrekur spilaði með KA á árunum 1994 til 1996. Þá má til gamans geta að bróðir þeirra hann Jóhannes Ólafur Jóhannesson lék einnig með KA á árum áður.


Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi, Ingvar Már Gíslason formaður KA og Hermann Haraldsson fyrrum stjórnarmaður handknattleiksdeildar KA. Myndina tók Jón Óskar Ísleifsson.

Jóhannes Gunnar Bjarnason eða Jói Bjarna eins og hann er iðulega kallaður lék um árabil með meistaraflokksliði KA og lék hann alls 226 leiki fyrir félagið. Í kjölfarið varð hann einn sigursælasti yngriflokkaþjálfari Íslandssögunnar en hann gerði KA alls 16 sinnum að Íslandsmeisturum áður en hann tók við stjórn meistaraflokks KA og gerði liðið að Bikarmeisturum árið 2004. Framlag Jóa við uppbyggingu handboltans innan KA verður aldrei fullmetið.

Sverre kom ungur inn í sterkt lið KA veturinn 1994-1995 og vann í kjölfarið allt sem hægt var að vinna með liðinu. Hann varð Deildarmeistari 1996 og 1998, Bikarmeistari 1995 og 1996 og Íslandsmeistari árið 1997 með KA og í kjölfarið lék Sverre sem atvinnumaður í Þýskalandi og lék alls 182 landsleiki fyrir Íslands hönd þar sem liðið vann silfur á Ólympíuleikunum 2008 og brons á Evrópumeistaramótinu árið 2010.

Arnór Atlason steig sín fyrstu skref með meistaraflokki KA tímabilið 2000-2001 er liðið varð Deildarmeistari. Hann varð Íslandsmeistari með KA árið 2002 og fór fyrir liði KA sem varð Bikarmeistari árið 2004. Hann hélt ungur út í atvinnumennsku þar sem hann lék með nokkrum af bestu liðum heims. Hann lék 203 landsleiki fyrir Íslands hönd og gerði í þeim 437 mörk. Með landsliðinu vann hann silfur á Ólympíuleikunum 2008 og brons á Evrópumeistaramótinu 2010 þar sem hann var stoðsendingahæsti maður mótsins.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is