Amelía og Jóna í 5. sæti með U19

Blak
Amelía og Jóna í 5. sæti með U19
Flottur árangur hjá stelpunum okkar

Þær Amelía Ýr Sigurðardóttir og Jóna Margrét Arnarsdóttir voru í eldlínunni með U19 ára landsliði Íslands í blaki sem keppti á NEVZA evrópumóti í Finnlandi um helgina. Þá var Gígja Guðnadóttir aðstoðarþjálfari liðsins.

Íslenska liðið lék í riðli með Finnum og Noregi og fóru báðir leikir í riðlinum fram á föstudeginum. Báðir leikir töpuðust á endanum 3-0 en leikurinn gegn Norðmönnum var þó æsispennandi og svekkjandi að ná ekki að vinna hrinu í þeim leik.

Í kjölfarið léku stelpurnar því um 5.-7. sætið á mótinu þar sem þær mættu Englendingum og Færeyingum. Leikið var gegn Englendingum á laugardaginn, Ísland komst í 2-0 forystu eftir frábæra frammistöðu í fyrstu hrinunum, 25-12 og 25-16. Þær ensku svöruðu hinsvegar fyrir sig og knúðu fram oddahrinu með 20-25 og 24-26 sigrum í næstu hrinum. Íslenska liðið reyndist hinsvegar mun sterkari aðilinn í oddahrinunni og vann hana 15-7 og þar með leikinn samtals 3-2.

Lokaleikurinn fór svo fram í dag þegar stelpurnar mættu Færeyjum. Þær Færeysku tóku fyrstu hrinuna 19-25 en í kjölfarið tóku íslensku stelpurnar öll völd á vellinum og unnu aðra hrinu 25-18 og þá þriðju 25-14. Töluverð spenna var svo í þeirri fjórðu sem Ísland vann loks í upphækkun 27-25 og vann þar með leikinn samtals 3-1.

Í lok móts var Jóna Margrét svo valin besti leikmaður Íslands á mótinu og er hér fyrir miðju ásamt bestu leikmönnum allra liða mótsins.

Íslenska liðið endar því mótið í 5. sæti sem er flottur árangur og óskum við Amelíu og Jónu ásamt liðsfélögum þeirra til hamingju með árangurinn.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is