Aldís Ásta framlengir við KA/Þór

Handbolti
Aldís Ásta framlengir við KA/Þór
Aldís og Elvar handsala samninginn góða

Aldís Ásta Heimisdóttir framlengdi í dag til tveggja ára við KA/Þór og leikur því áfram með liðinu. Aldís sem er uppalin hjá KA/Þór er algjör lykilmaður í liðinu hvort sem er í sókn eða vörn. Hún lék sína fyrstu A-landsleiki fyrir Íslands hönd í vetur og gerði sín fyrstu landsliðsmörk í leik gegn Sviss.

Aldís sem verður 23 ára gömul á morgun steig snemma sín fyrstu skref í meistaraflokki en það var tímabilið 2014-2015 og er hún því þrátt fyrir ungan aldur komin með þó nokkra reynslu. Hún hefur nú leikið 158 leiki fyrir KA/Þór og ljóst að þeir verða enn fleiri á næstu árum.

Auk A-landsleikjanna þá hefur Aldís leikið ófáa leiki fyrir unglingalandslið Íslands og lék meðal annars á HM í Ungverjalandi með U20 ára landsliðinu sumarið 2018. Árið 2016 hlaut Aldís Böggubikarinn en hann er veittur ungum iðkanda hjá KA sem skarar framúr bæði innan sem utan vallar.


KA/Þór átti fimm fulltrúa á sama tíma í A-landsliðinu í vetur. Frá vinstri Rakel Sara Elvarsdóttir, Rut Jónsdóttir, Ásdís Guðmundsdóttir, Aldís Ásta Heimisdóttir og Unnur Ómarsdóttir

Það er gríðarlega jákvætt að halda Aldísi áfram innan okkar raða og klárt að það er áfram bjart framundan hjá liði KA/Þórs. Stelpurnar mæta Val í lokaumferð Olísdeildarinnar á Hlíðarenda á morgun og kemur þá í ljós hvort stelpurnar enda í 2. eða 3. sæti deildarinnar, í kjölfarið hefst svo úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn þar sem stelpurnar hafa titil að verja.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is