Ívar Arnbro lék með U19 í Ungverjalandi

Fótbolti

Ívar Arnbro Þórhallsson var í lokahóp U19 ára landsliðs Íslands í knattspyrnu sem keppti í milliriðli í undankeppni EM 2025 en leikið var í Ungverjalandi. Íslenska liðið var í sterkum riðli og léku þar gegn heimamönnum í Ungverjalandi auk liði Danmerkur og Austurríkis.

Fyrsti leikur tapaðist 0-2 gegn liði Danmerkur en danska liðið vann alla sína leiki og vann þar með riðilinn. Í kjölfarið mættu íslensku strákarnir liði Austurríkis en sá leikur tapaðist 1-3.

Í lokaleiknum sem fram fór í dag mætti íslenska liðið Ungverjalandi og lék Ívar allan tímann í marki Íslands. Heppnin var ekki með strákunum í dag rétt eins og í fyrri leikjum en meðal annars fór vítaspyrnu forgörðum í 0-1 tapi.

Við óskum Ívari engu að síður til hamingju með flotta frammistöðu en framundan er spennandi sumar hjá honum en Ívar sem framlengdi samning sinn við KA út 2027 á dögunum leikur á láni hjá Völsung í næstefstu deild í sumar.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is