Flýtilyklar
Frábær heimasigur á Fylki (myndaveislur)
KA vann frábæran 4-2 heimasigur á Fylkismönnum í 7. umferð Bestudeildarinnar. Strákarnir fylgdu þar eftir góðum sigri á Vestra í bikarnum á dögunum og klárt að liðið er búið að finna taktinn og bjóða þeir Þórir Tryggvason og Sævar Geir Sigurjónsson upp á myndaveislur frá leiknum.
KA liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og kom Sveinn Margeir Hauksson liðinu yfir eftir einungis þrjár mínútur. Strákarnir höfðu mikla yfirburði í fyrri hálfleik og bara spurning hvenær mörkin yrðu fleiri. Daníel Hafsteinsson gerði það á 25. mínútu eftir laglega sendingu frá Hallgrími Mar.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum
Undir lok fyrri hálfleiks gerði Sveinn Margeir virkilega vel í að koma sér framhjá Ólafi Kristófer í marki gestanna en skot hans endaði í slánni. Stuttu síðar fékk KA-liðið vítaspyrnu, Ólafur varði spyrnuna frá Hallgrími Mar en Daníel Hafsteinsson var fyrstur að átta sig og kom strákunum okkar í 3-0 stöðu er liðin gengu til búningsherbergja sinna.
Fylkismenn komu hinsvegar mjög sterkir til leiks í þeim síðari og Matthias Præst minnkaði muninn strax á 53. mínútu sem gaf þeim vonir um endurkomu. KA-liðið bakkaði í kjölfarið og það kannski full mikið en gestirnir tóku yfir leikinn. Aron Snær Guðbjörnsson náði að minnka muninn í 3-2 með skallamarki á 75. mínútu og fór um stuðningsmenn KA.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Sævars Geirs frá leiknum
En innkoma Viðars Arnars Kjartanssonar átti eftir að vera blómleg en á 89. mínútu gerði hann frábærlega er hann tók boltann niður og þræddi vörn gestanna með magnaðri sendingu á Ásgeir Sigurgeirsson sem kláraði að endingu frábærlega og 4-2 sigur staðreynd.
Gríðarlega mikilvæg þrjú stig í hús og frammistaða liðsins í fyrri hálfleik algjörlega stórkostleg. Liðið bakkaði fullmikið í þeim síðari en sýndi alvöru karakter að klára dæmið og nú er leiðin einungis upp á við.