Flýtilyklar
Bjarki Fannar til liðs við KA - samningur út 2028
Bjarki Fannar Helgason er genginn í raðir KA og hefur hann skrifað undir samning við félagið sem gildir út sumarið 2028. Eru þetta afar spennandi fréttir en Bjarki sem kemur frá Hetti/Huginn er efnilegur og spennandi miðjumaður sem er fæddur árið 2005.
Bjarki hefur nú þegar góða góða reynslu af því að leika í gula og bláa búningnum en hann var hluti af 2. flokk KA sem hampaði Íslandsmeistaratitlinum síðustu leiktíð. Í liðinu léku einnig Ívar Arnbro Þórhallsson sem er uppalinn KA-maður en lék þetta sumar með meistaraflokki Hetti/Hugins sem og Árni Veigar Árnason sem er uppalinn fyrir austan en gekk í raðir KA sumarið 2023.
Síðasta sumar lék Bjarki 21 leik í 2. deildinni með Hetti/Huginn og hefur hann vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína á vellinum. KA og Höttur/Huginn hafa átt í góðu samstarfi undanfarin ár og er hluti af samningi félaganna að Bjarki mun leika á láni hjá Hetti/Huginn á komandi sumri. Hann verður þó hjá okkur KA-mönnum næstu vikurnar áður en hann hefur lokaundirbúning fyrir sumarið fyrir austan.
Bjarki er eins og áður segir gríðarlega spennandi leikmaður sem við sjáum fyrir okkur sem framtíðarleikmann. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn í KA!