Fréttir

Sætaferðir á bikarúrslitaleik kvenna

Laugardaginn 24. Ágúst leikur Þór/KA til úrslita í Borgunarbikarnum gegn Breiðabliki og fer leikurinn fram á Laugardalsvelli. Í tengslum við þennan leik verður boðið upp á sætaferðir á leikinn á frábæru verði eða aðeins 5000 krónur.  Hægt er að skrá sig í síma 461-2080 og eða senda tölvupóst á pallig[at]thorsport.is ganga þarf frá greiðslu fyrir 22. ágúst. Farið verður frá Hamri klukkan 09:00 og áætluð brottför frá Reykjavík klukkan 19:30. 

Víkingar sóttir heim á morgun

Á morgun ferðast okkar menn suður yfir heiðar, nánar tiltekið í Fossvoginn þar sem liðið etur kappi við Víking frá Reykjavík. Um er að ræða gríðarlega mikilvægan leik fyrir bæði lið og því ljóst að það verður hart barist um stigin þrjú sem eru í boði. Víkingur er í 4. sæti deildarinnar með 26 stig einu stigi frá toppsætinu en KA er í því sjöunda með 22 stig. Leikurinn hefst kl. 18.00.

Tap gegn Leikni í bragðdaufum leik

KA og Leiknir R. mættust í dag í 15. umferð 1.deildar karla og lauk leiknum með 1-0 sigri gestanna í vægast sagt bragðdaufum leik þar sem marktæfæri leiksins gætu verið talinn á fingrum annarrar handar. Með sigrinum fóru Leiknismenn upp í 4.sæti deildarinnar með 25 stig en KA er í því sjöunda með 22 stig. Næsti leikur KA er gegn Víkingum á útivelli föstudaginn næsta.

Leiknismenn í heimsókn á laugardaginn

Á laugardaginn koma Breiðhyltingar í heimsókn og mæta okkar mönnum í 15. umferð 1.deildar karla. Leiknismenn eru sæti fyrir ofan KA í 6. sæti deildarinnar. Liðin eru þó með jafn mörg stig en Breiðhyltingar með betri markatölu. Leikurinn hefst kl. 16.00 og verður að sjálfsögðu boðið upp á grillaða hamborgara og pylsur 45 mínútum fyrir leik.

Tölfræði KA í sumar

Nú þegar að tímabilið er meira en hálfnað og verslunarmannahelgin að ganga í garð er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg og skoða tölfræði KA liðsins það sem af er móti. Leiknir hafa verið 14 af 22 leikjum í sumar og er aðalega stuðst við upplýsingar úr gagnagrunni KSÍ ásamt upplýsingum frá KA-sport í þessari tölfræði.

Jafntefli í skrautlegum leik gegn KF

Í kvöld mættust KA og KF í kaflaskiptum leik sem lauk með 1-1 jafntefli. Fyrri hálfleikur var gríðarlega bragðdaufur og fátt markvert gerðist. Í þeim síðar var hinsvegar nóg að gerast og fékk Bjarki Baldvinsson ranglega rautt spjald. Gestirnir úr KF komust síðan yfir með marki frá Jóni Björgvini Krisjánssyni. Okkar menn fengu síðan vítaspyrnu tveimur mínútum síðar en Brian Gilmour skaut í slá. Á 89. mínútu jafnaði síðan Brian Gilmour metin eftir að hafa fylgt eftir skoti Atla Sveins.

Víkingur Ólafsvík vann opna svalamótið

Í dag fór fram Opna Svalamótið í 6.fl karla hjá KA. Skipt var í 6 lið þar sem spilað var 6vs6.  Liðin sem tóku þátt að þessu sinnu voru. Valur FH Breiðablik Víkingur Ó KR Fylkir

KF í heimsókn á morgun

Á morgun koma nágrannar okkar úr Fjallabyggð í heimsókn í 14. umferð 1.deildar karla á Akureyrarvelli. Leikurinn verður flautaður á klukkan 19.15. KF eru í 10. sæti með 13 stig á meðan okkar menn eru í 5. sæti með 21 stig. Eins og ávallt verður grillað fyrir leik og hefst fjörið 45 mínútum fyrir leik. 

Grill og gleði á Akureyrarvelli á miðvikudaginn

KA menn taka á móti liði KF frá Fjallabyggð á miðvikudaginn kemur og hefst leikurinn kl. 19.15. Með sigri geta strákarnir okkar sett allt upp í loft í toppbaráttu 1. deildar en liðið hefur verið á miklu skriði í síðustu leikjum. Við munum að sjálfsögðu halda uppteknum hætti og grilla fyrir áhorfendur og munum við kveikja á grillinu kl. 18.00. Í boði verða hamborgarar og drykkir frá Vífilfelli á vægast sagt sanngjörnu verði. Einnig verðum við með til sölu hina glæsilegu KA trefla. Ekki láta þig vanta!

Carsten Pedersen hetja KA í sigri á Fjölni

KA menn unnu í dag 1-0 sigur á Fjölnismönnum í Grafarvogi í tíðindalitlum leik. Staðan í hálfleik var markalaus en í síðari hálfleik skoraði Carsten Pedersen sigurmark KA á 86. mínútu eftir hornspyrnu frá Brian Gilmour. Eftir sigurinn er KA í 4-5.sæti með 21 stig og taplausir í síðustu sjö leikjum.