Fréttir

Útileikur gegn Fjölni

Á morgun bregða okkar menn undir sig betri fætinum og fara í Grafarvoginn og etja kappi við Fjölni. Staða liðanna í deildinni er svipuð og sitja þau í 5. og 6 sæti deildarinnar. Fjölnir með 21 stig en KA með 18 stig. Leikurinn hefst kl. 14.00 og verður í beinni hjá SportTV og verður sjónvarpað hér í KA-heimilinu á breiðtjaldi.

Dramatískur sigur á Selfyssingum

KA og Selfoss mættust í dag á Akureyrarvelli í hreint út sagt ótrúlegum leik þar sem okkar menn skoruðu sigurmarkið í uppbótartíma. Staðan í hálfleik var 1-0 okkur í vil en í þeim síðari var boðið upp á sannkallaða markasúpu og voru það Brian Gilmour, Atli Sveinn og Ivan sem skoruðu mörk okkar í seinni hálfleiknum. En fyrsta mark okkar í leiknum var sjálfsmark gestana. 

KA - Selfoss á morgun

Á morgun hefst seinni umferð 1.deildar karla þegar að við fáum Selfyssinga í heimsókn. Staða liðanna í deildinni er ekki ólík. Selfyssingar sitja í 8.sæti með 14 stig. Á meðan okkar menn eru sæti ofar og með 15 stig. Leikurinn hefst á slaginu klukkan 16.00 og verður það Halldór Breiðfjörð Jóhannsson sem mun dæma leikinn. Við hvetjum alla að mæta tímanlega. Það verður fírað upp í grillinu 45 mínútum fyrir leik og boðið upp á hamborgara, pyslur og gos á vægu verði.

Ótrúleg endurkoma gegn Grindavík

Í kvöld skildu KA og Grindavík jöfn í bráðskemmtilegum leik sem var gríðarlega kaflaskiptur. Fyrri hálfleikur leiksins var algjör eign gestana úr Grindavík sem voru verðskuldað yfir 2-0 í hálfleik eftir mörk frá Daníel Leó Grétarssyni og Juraj Grizelj. En í síðari hálfleik náði Carsten Pedersen að minnka muninn á 71. mínútu og skömmu seinna jafnaði varamaðurinn Ómar Friðriksson fyrir KA með þrumu skoti og 2-2 jafntefli því staðreynd.

Topplið Grindavíkur í heimsókn á morgun

Á morgun þriðjudag mætast KA og Grindavík í 11. umferð 1.deildar karla. Um er að ræða síðasta leik fyrri umferðar mótsins. Við hvetjum alla til að fjölmenna á leikinn enda um hörkuleik að ræða þar sem Grindavík sitja einir á toppnum með 22 stig og KA liðið verið á mikilli siglingu í undanförnum leikjum. Leikurinn hefst kl. 18.00.

Góður útisigur á Þrótturum

Í kvöld vann KA gríðarlega góðan útisigur á Þrótturum 1-0. Það var Ivan Dragicevic sem skoraði eina mark leiksins á 21. mínútu eftir hornspyrnu frá Hallgrími Mar. Leikurinn í kvöld fer seint í sögubækurnar fyrir áferða fallegan fótbolta en afar mikilvæg stig í hús hjá liðinu á erfiðum útivelli. KA liðið hefur fengið 10 stig af 12 í fjórum síðustu leikjum og hefur liðið haldið hreinu í þremur af þessum fjórum leikjum. 

Þróttarar sóttir heim á morgun

Á morgun fer liðið suður yfir heiðar og sækir Þróttara heim í 10. umferð 1.deildar karla. Leikurinn verður flautaður á kl. 19.15. Um er að ræða fyrsta heimaleik Þróttara undir stjórn Zoran Miljkovic sem tók við stjórnartaumunum hjá liðinu á dögunum. Liðin eru á svipuðum stað í deildinni. Þróttarar sitja í 11. sæti með 8 stig en KA er í því áttunda með 11 stig.

2-0 sigur gegn Völsungum

Okkar menn unnu í kvöld góðan 2-0 sigur á nágrönnum okkar frá Húsavík. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en í þeim síðari skoraði KA tvö mörk og hefðu þau hæglega getað verið fleiri. Gunnar Valur hélt upp á endurkomu sína í byrjunarlið KA eftir að hafa verið að stíga upp úr erfiðum meiðslum með því skora fyrsta mark KA í leiknum. Carsten Pedersen bætti svo við öðru marki á 75. mínútu. Gestirnir frá Húsavík fengu síðan vítaspyrnu í seinni hálfleik í stöðunni 1-0 fyrir KA sem Sandor Matus varði glæsilega. Lokatölur leiksins því 2-0 KA í vil sem með sigrinum eru komnir upp í 11 stig og á fleygiferð upp töfluna.

N1 mótið hafið!

N1-mót KA 2013 hófst í dag en fyrstu leikir verða flautaðir á eftir örfáar mínútur. Að þessu sinni eru um 1400 metnaðarfullir fótboltastrákar skráðir til leiks með sínum félögum en í ár verður leikið á tólf völlum og í fyrsta sinn á stórglæsilegum gervigrasvelli – þeim nýjasta á landinu. Það má því með sanni segja að næstu dagana verði boðið upp á algjöra fótboltaveislu á KA-svæðinu. Allar upplýsingar um mótið má finna á heimasíðu mótsins með því að smella hér. Góða skemmtun!

KA - Völsungur á morgun

Þá er komið að 9. umferð 1.deildarinnar og er það heimaleikur gegn nágrönnum okkar frá Húsavík sem bíður okkar á morgun. Leikurinn mun hefjast á slaginu klukkan 19.15 og verður það Halldór Breiðfjörð Jóhannsson sem mun sjá til þess að leikurinn fari prúðmannlega fram. Fyrir leikinn á morgun situr Völsungur á botni deildarinnar með 2 stig en KA í því níunda með 8 stig og ljóst um er að ræða hörkuleik þar sem ekkert verður gefið eftir.