Jafntefli í skrautlegum leik gegn KF

Mynd/Sævar Geir
Mynd/Sævar Geir

Í kvöld mættust KA og KF í kaflaskiptum leik sem lauk með 1-1 jafntefli. Fyrri hálfleikur var gríðarlega bragðdaufur og fátt markvert gerðist. Í þeim síðar var hinsvegar nóg að gerast og fékk Bjarki Baldvinsson ranglega rautt spjald. Gestirnir úr KF komust síðan yfir með marki frá Jóni Björgvini Krisjánssyni. Okkar menn fengu síðan vítaspyrnu tveimur mínútum síðar en Brian Gilmour skaut í slá. Á 89. mínútu jafnaði síðan Brian Gilmour metin eftir að hafa fylgt eftir skoti Atla Sveins.

KA 1 - 1 KF

0-0 Bjarki Baldvinsson Rautt spjald ('54)

0-1 Jón Björgvin Kristjánsson ('82)

0-1 Brian Gilmour brenndi af víti ('84)

1-1 Brian Gilmour ('89) Stoðsending: Atli Sveinn Þórarinsson

Lið KA í dag: Sandor Matus, Ómar Friðriksson, Atli Sveinn Þórarinsson, Ivan Dragicevic, Darren Lough, Davíð Rúnar Bjarnason, Brian Gilmour, Orri Gústafsson (Jón Heiðar 67.mín), Ævar Ingi Jóhannesson (Bessi 79.mín), Bjarki Baldvinsson, Carsten Pedersen.

Bekkur: Fannar Hafsteinsson, Gunnar Valur Gunnarsson, Andrés Vilhjámsson, Bessi Víðisson, Jón Heiðar Magnússon, Jakob Hafsteinsson.

Tvær breytingar voru gerðar á KA liðinu eftir sigurleikinn gegn Fjölni síðasta laugardag. Inn í liðið komu Orri Gústafsson og Ivan Dragicevic sem var í banni í síðasta leik. Hallgrímur Mar var ekki með í kvöld vegna meiðsla. Bjarni þjálfari var síðan upp í stúku vegna leikbanns. En hann fékk rautt spjald gegn Fjölni.

Leikurinn í kvöld hófst rólega og lágu gestirnir í KF mjög aftarlega á vellinum og KA voru mikið með boltann. KF beittu þó hættulegum skyndisóknum líkt og í fyrri leik liðanna. Skemmtanagildi fyrri hálfleiksins var sama og ekkert og var í hreinskilni sagt í takt við veðrið sem var ömurlegt. Kalt og norðangarri. Eina markverða tækifæri fyrri hálfleiksins hjá okkar mönnum kom þegar að Darren átti góða fyrirgjöf fyrir markið sem Orri Gústafsson komst næstum því í en varnarmaður KF komst fyrir og boltinn hafnaði í fangi markmanns KF sem átti ekki í neinum vandræðum með skotið ef skot skal kalla. Rétt fyrir hálfleik fengu okkar menn svo aukaspyrnu á álitlegum stað rétt fyrir utan teig en Brian átti máttlaust skot yfir markið.

Síðari hálfleikurinn hófst eins og sá fyrri og gerðist ekkert fyrstu tíu mínúturnar. Eftir 54. mínútur gerðist svo afar umdeilt atvik. Carsten Pedersen var þá felldur niður af Sigurjóni Fannari Sigurðssyni og þeim lenti saman þar sem Carsten fór að andliti Sigurjóns og Sigurjón féll niður með miklum leikrænum tilburðum og gerði hann mun meira úr atvikinu. Dómari leiksins Valdimar Pálsson gaf Sigurjóni gult spjald og svo af einhverjum óskiljanlegum ástæðum gaf hann Bjarka Baldvinssyni rauða spjaldið. Og greinilegt að hann ruglaðist á leikmönnum enda Bjarki ekkert unnið til saka.

Eftir rauða spjaldið batnaði spilamennska KA liðsins til muna og var eins og okkar menn efldust við mótlætið. Stuttu eftir rauða spjaldið áttu Ævar og Darren gott samspil við vítateig gestanna sem lauk með því að Darren kom föstu skoti að marki sem Björn Hákon í marki KF þurfti að hafa sig allann við til að verja. Á 70. mínútu var Darren svo aftur í færi þegar að Brian tók aukaspyrnu út á miðjum velli og boltinn barst til Darren sem var kominn í ákjósanlega stöðu en skaut með hægri fæti rétt framhjá markinu.

Það var svo á 82. mínútu þegar að gestirnir komust yfir gegn gangi leiksins. KF geystist þá upp vinstri vænginn og áttu skiptingu yfir á Jón Björgvin Kristjánsson sem tók boltann snyrtilega niður og hamraði honum að marki og í netinu endaði boltinn. Virkilega laglega gert hjá Jóni Björgvini sem er markahæsti leikmaður KF það sem af er tímabili.

Tveimur mínútum síðar átti Brian stungusendingu inn fyrir á fyrirliðann Atla Svein sem hafði brugðið sér í sóknina og honum og markmanni KF lenti saman og Valdimar Pálsson dæmi vítaspyrnu. Mjög ódýr vítaspyrna að mínu mati þar sem Björn virtist hafa einungis varið boltann. Brian Gilmour fór á punktinn og nelgdi boltanum í slánna og leikmenn KF hreinsuðu boltann í burtu.

Þrátt fyrir vítaklikkið voru okkar menn ekki af baki dottnir og sóttu linnulaust að marki gestanna. Það skilaði sér síðan á 89. mínútu þegar að Ómar átti langt innkast þar sem boltinn endaði hjá Carsten sem skilaði honum á Bessa sem gerði mjög vel og gaf boltann út í teiginn á Atla Svein sem skaut í átt að marki og Brian Gilmour fylgdi skoti hans eftir og hamraði boltanum í netið af stuttu færi og staðan orðin jöfn.

KA sóttu stíft á lokamínútunum og voru æstir í að ná í öll stigin þrjú og ekki mátti sjá að liðið hafi verið einum færri lungað úr seinni hálfleik. En allt kom fyrir ekki og endaði leikurinn með jafntefli í ansi skrautlegum leik. 

KA-maður leiksins: Davíð Rúnar Bjarnason (Barðist mikið í leiknum í dag og tapaði varla návígi. Lék mjög vel í kvöld og var besti maður KA í leiknum.)

Næsti leikur liðsins er heimaleikur þann 10. ágúst þegar að Leiknismenn koma í heimsókn. Á morgun kemur svo inn á síðuna tölfræði samantekt úr fyrri hluta tímabilsins. Áfram KA !